Körfubolti

Hakeem hjálpaði LeBron síðasta sumar og nú er komið að Amare

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Heiðurshallarmeðlimurinn og tvöfaldi NBA-meistarinn Hakeem Olajuwon fékk mikið hrós fyrir að taka LeBron James hjá Miami Heat í gegn síðasta sumar þar sem hann gaf James góð ráð í réttum hreyfingum undir körfunni. LeBron James skoraði meira inn í teig í vetur en tímabilin á undan sem átti að flestra mati mikinn þátt í því að hann varð NBA-meistari.

Hakeem Olajuwon er kominn með nýtt verkefni í sumar því Amare Stoudemire, framherji New York Knicks, ætlar að fá góð ráð hjá honum og hver veit nema að miðherjinn Tyson Chandler láti líka sjá sig á æfingunum sem fara fram í New York í ágúst.

Olajuwon hefur einnig unnið með stórstjörnum eins og Kobe Bryant og Dwight Howard á síðustu árum enda ekki slæmt að leita til mannsins sem Michael Jordan vildi hafa í miðherjastöðunni í besta liði NBA fyrr og síðar. Olajuwon var kallaður draumurinn og ekki á ástæðulausu enda hreyfir sig enginn eins og Hakeem.

Hakeem Olajuwon varð NBA-meistari með Houston Rockets 1994 og 1995 og var kosinn besti leikmaður úrslitanna bæði árin. Hann skoraði 21,8 stig, tók 11,1 fráköst og varði 3,1 skot að meðaltali í 1238 leikjum í NBA-deildinni frá 1984 til 2002.

Það er hægt að sjá skemmtilegt myndband umferil með því að smella hér fyrir ofan en eins er hægt að sjá tíu flottustu tilþrif hans á ferlinum með því að smella hér.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×