Körfubolti

NBA í nótt: Oklahoma tók forystu gegn Miami

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Russell Westbrook og Kevin Durant fagna í nótt.
Russell Westbrook og Kevin Durant fagna í nótt. Mynd/AP
Oklahoma City Thunder er komið í 1-0 forystu gegn Miami Heat í einvígi liðanna í lokaúrslitum NBA-deildarinnar í körfubolta. Kevin Durant, leikmaður Oklahoma City, fór á kostum í 105-94 sigri sinna manna í nótt.

Leikurinn fór fram í Oklahoma í nótt og eiga Durant og félagar tækifæri á að komast í 2-0 með sigri á heimavelli aðfaranótt föstudagsins. Eftir það færist einvígið til Miami þar sem leikið verður þrívegis, gerist þess þörf.

Miami byrjaði betur í leiknum en Oklahoma City náði forystunni í lok þriðja leikhluta leikhluta. Liðið tók svo öll völd á vellinum í þeim fjórða, þar sem að Durant fór mikinn og skoraði sautján af sínum 36 stigum í leiknum. Oklahoma City kom sér í þægilega forystu sem Miami náði aldrei að ógna á lokamínútum leiksins.

Russell Westbrook var einnig öflugur í leiknum og skoraði 27 stig auk þess sem hann gaf ellefu stoðsendingar og tók átta fráköst. Saman skoruðu hann og Durant meira í síðari hálfleik en allir leikmenn Miami gerðu samanlagt.

LeBron James skoraði 30 stig í leiknum sem er persónulegt met hjá honum í leik í lokaúrslitunum. Engu að síður skoraði hann aðeins sex stig í fjórða leikhluta sem minnti á frammistöðu hans gegn Dallas í lokaúrslitunum í fyrra, þar sem hann skoraði aðeins þrjú stig að meðaltali í fjórða leikhluta leikjanna.

James spilaði þó ekki illa í leiknum, heldur náði Oklahoma City að stíga upp á hárréttum tíma. Leikmenn Miami réðu einfaldlega ekkert við heimamenn.

Dwyane Wade skoraði nítján stig fyrir Miami en nýtti aðeins sjö af nítján skotum sínum í leiknum. Shane Battier spilaði vel í sókn og skoraði alls sautján stig.

Oklahoma City hefur nú unnið alla níu leiki sína á heimavelli í úrslitakeppninni, þar sem liðið virðist einfaldlega óstöðvandi.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×