Körfubolti

Serge Ibaka: LeBron James er ekki góður varnarmaður

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Serge Ibaka og LeBron James.
Serge Ibaka og LeBron James. Mynd/Nordic Photos/Getty
Serge Ibaka, framherji Oklahoma City Thunder, ákvað að blanda sér í sálfræðistríðið á milli Miami Heat og Oklahoma City Thunder fyrir fjórða leik liðanna sem fer fram í Miami í kvöld. Leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og hefst klukkan eitt eftir miðnætti að íslenskum tíma.

Serge Ibaka notaði tækifærið í blaðaviðtali og skaut á LeBron James en þér félagar voru báðir valdir í varnarlið ársins í NBA-deildinni. Ibaka gefur hinsvegar ekki mikið fyrir varnartilþrif LeBron James.

„LeBron James er ekki góður varnarmaður. Hann getur kannski spilað góða vörn í tvær til þrjár mínútur en aldrei í allar 48 mínúturnar. LeBron ræður ekki við Kevin Durant einn á einn en Miami-liðið er hinsvegar að spila góða liðsvörn," sagði Serge Ibaka og LeBron James var í kjölfarið spurður út í ummæli Ibaka.

„Mér er nákvæmlega sama um hvað hann segir, hann er vitlaus," sagði LeBron James og bætti við: „Það eru alltaf einhverjir að beina orðum sínum til mín í öllum einvígum og svo reyna fjölmiðlarnir að fá viðbrögð frá mér. Þetta er bara heimskulegt," sagði James.

LeBron James hefur spilað vel í fyrstu þremur leikjunum í úrslitaeinvíginu en hann er með 30,3 stig, 10,3 fráköst og 4,0 stoðsendingar að meðaltali í leik í einvíginu á móti Thunder. Ibaka er aftur á móti með 7,3 stig, 5,0 fráköst og 2,3 varin skot að meðaltali.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×