Körfubolti

Wade býst við svörum hjá Spoelstra

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Spoelstra hefur virkað svaralaus í síðustu leikjum.
Spoelstra hefur virkað svaralaus í síðustu leikjum. MYND/NORDIC PHOTOS GETTY
Dwyane Wade hefur sett pressu á þjálfara Miami Heat fyrir fjórða leik Heat og Boston Celtics í úrslitum austurstrandar NBA körfuboltans sem hefst í nótt klukkan hálf eitt og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Wade ætlast til að Erik Spoelstra finni svör við batnandi leik Boston Celtics.

Miami Heat leiðir einvígið 2-1 en fjórði leikurinn verður í Boston þar sem heimamenn sigruðu þriðja leikinn örugglega.

Doc Rivers þjálfari Boston Celtics hefur haft betur í rimmu þjálfaranna og fundið svör við leik Miami Heat en Heat vann fyrsta leikinn í rimmu liðanna örugglega en var heppið að vinna annan leikinn á heimavelli sínum.

"Það er hér sem þjálfararnir fá ríkulega greitt fyrir að standa sig," sagði Dwayne Wade fyrir æfingu Miami Heat í gær í TD Garden í Boston.

"Í dag fá þjálfarar liðsins launaseðlana sína, ekki fyrsta dag mánaðarins heldur annan. Við hlökkum til að mæta og heyra hvað leiðtogi okkar hefur að segja og á hvað hann leggur áherslur," sagði Wade.

Spoelstra mætti á æfinguna með þykka möppu undir höndunum og fjölda myndbandsbrota af þriðja leik liðanna eftir nótt sem fór í leikgreiningu og myndbandsvinnu en ekki svefn.

"Við þurfum að fara yfir leikinn og axla ábyrgð. Við þurfum að vera kraftmeiri í kringum körfurnar, á stöðum þar sem stóru vöðvarnir ráða ríkjum," sagði Spoelstra við fréttamenn áður en hann fór og lagði línurnar fyrir leikmenn sína.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×