Körfubolti

NBA: Los Angeles liðin misstu bæði niður góða forystu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kobe Bryant og Serge Ibaka.
Kobe Bryant og Serge Ibaka. Mynd/AP
Tveir leikir fóru fram í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í nótt og eftir hana eru bæði Los Angeles liðin aðeins einu tapi frá því að detta út. San Antonio Spurs hélt sigurgöngu sinni áfram og er komið í 3-0 á móti Los Angeles Clippers og Oklahoma City Thunder er 3-1 yfir á móti Los Angeles Lakers eftir endurkomusigur í æsispennandi leik í LA.

San Antonio Spurs vann upp 22 stiga forskot Los Angeles Clippers eftir fyrsta leikhluta og tryggði sér 96-86 sigur og 3-0 forystu í einvígi liðanna í undanúrslitum Vesturdeildarinnar. Tony Parker skoraði 23 stig og spilaði eins og áður frábæra vörn á Chris Paul. Spurs-liðið hefur nú unnið 17 leiki í röð, alla sjö leiki sína í úrslitakeppninni og tíu síðustu leikina í deildarkeppninni.

San Antonio skoraði 24 stig í röð í þriðja leikhlutanum og unnu leikhlutann á endanum 26-8. Clippers vann fyrsta leikhlutann 33-11 og var 53-43 yfir í hálfleik en staðan var orðin 69-61 fyrir Spurs eftir þennan afdrifaríka þriðja leikhluta.

Tim Duncan var með 19 stig, 13 fráköst og 4 stoðsendingar og nýliðinn Kawhi Leonard bætti við 14 stigum og 9 fráköstum. Manu Ginobili var með 13 stig og 6 stoðsendingar. Blake Griffin var langatkvæðamestur hjá Clippers með 28 stig og 16 fráköst en Mo Williams skoraði 19 stig og Chris Paul var með 12 stig og 11 stoðsendingar.

Oklahoma City Thunder var 13 stigum undir þegar aðeins átta mínútur voru eftir og það leit út fyrir að Los Angeles Lakers væri að takast að jafna einvígið. Russell Westbrook skoraði 10 af 37 stigum sínum á lokakaflanum og Oklahoma City vann lokamínúturnar 22-8 og þar með leikinn 103-100. Liðin voru að mætast annað kvöldið í röð og ungu strákarnir í Thunder áttu miklu meira inni í lokin.

Kevin Durant skoraði 31 stig og 13 fráköst fyrir Oklahoma City og Serge Ibaka bætti við 14 stigum og 5 vörðum skotum. Kobe Bryant skoraði 38 stig fyrir Lakers, Andrew Bynum var með 18 stig og Metta World Peace skoraði 14 stig.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×