Körfubolti

NBA: Miami Heat jafnar einvígið gegn Indiana | James og Wade fóru á kostum

Stefán Árni Pálsson skrifar
Lebron James var magnaður í kvöld.
Lebron James var magnaður í kvöld. Mynd. / Getty Images
Lebron James og Dwyane Wade hafa fengið á sig töluverða gagnrýni að undanförnu og þá sérstaklega sá síðarnefndi. Í kvöld voru þeir báðir heldur betur mættir til leiks og fóru fyrir sínum mönnum í Miami Heat þegar liðið bar sigur úr býtum, 101-93, gegn Indiana Pacers í fjórða leik liðanna í undan úrslitum Austurdeildarinnar. Staðan er því 2-2 í einvíginu.

Indiana Pacers byrjaði frábærlega í leiknum og komust í 9-0. Það gekk ekkert upp hjá Miami og þá sérstaklega hjá Dwyane Wade en hann missti boltann hvað eftir annað frá sér. Wade átti líklega sinn versta leik á ferlinum í síðasta leik gegn Pacers og þetta leit illa út til að byrja með hjá Heat.

Hægt og rólega komust gestirnir frá Miami í takt við leikinn og staðan var 54-46 fyrir Pacers í hálfleik.

Þegar komið var fram í síðari hálfleikinn voru Wade og Lebron James heldur betur komnir í gang og fóru á kostum. Fljótlega voru Heat komnir yfir 63-61 og tóku þá völdin á vellinum næstu mínútur.

Indiana Pacers var aldrei langt frá Heat og leikurinn alltaf galopinn. Þegar upp var staðið voru það Lebron James og Dwyane Wade sem kláruðu leikinn og stóðu uppi sem sigurvegarar en leiknum lauk með sigri Miami Heat 101-93.

Staðan er því 2-2 í einvígi liðanna og næsti leikur fer fram í Miami.

Lebron James skoraði 40 stig í leiknum, tók 18 fráköst og gaf níu stoðsendingar. Hreint út sagt magnaður leikur hjá James. Wade var einnig frábær en hann gerði 30 stig, tók 9 fráköst og gaf 6 stoðsendingar.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×