Körfubolti

NBA í nótt: Oklahoma sló út Lakers

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kobe Bryant gengur niðurlútur af velli eftir leikinn í nótt.
Kobe Bryant gengur niðurlútur af velli eftir leikinn í nótt. Mynd/AP
Oklahoma City heldur áfram að gera það gott í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfubolta en liðið tryggði sér í nótt sæti í lokaúrslitum Vesturdeildarinnar með því að slá LA Lakers úr leik.

Oklahoma City vann fimmta leik liðanna í nótt, 93-77, og þar með seríuna 4-1. Oklahoma tók fram úr í seinni hálfleik og vann nokkuð öruggan sigur.

Russell Westbrook skoraði 28 stig fyrir heimamenn og Kevin Durant var með 25 stig og tíu fráköst. Kobe Bryant skoraði 42 stig fyrir Lakers en það dugði ekki til.

Oklahoma City mætir nú San Antonio í lokaúrslitinum í vestrinu en sú rimma hefst á sunnudaginn.

Boston er komið í 3-2 forystu í sinni undanúrslitarimmu gegn Philadelphia í Austurdeildinni. Boston vann leik liðanna á heimavelli í nótt, 101-85.

Brandon Bass skoraði 27 stig fyrir Boston í leiknum sem er persónulegt met hjá honum í úrslitakeppninni. Þar af setti hann niður átján stig í þriðja leikhluta en þá fór Boston langt með að tryggja sér sigur í leiknum.

Kevin Garnett var með 20 stig og Rajon Rondo þrettán stig og fjórtán stoðsendingar. Boston getur tryggt sér sigur í rimmunni með því að vinna Philadelphia á útivelli annað kvöld. Þurfi hins vegar oddaleik til fer hann fram í Boston á laugardaginn.

Sigurvegari einvígisins mætir annað hvort Indiana eða Miami í úrslitum Austurdeildarinnar en staðan í þeirri rimmu er 2-2.

Elton Brand skoraði nítján stig fyrir Philadelphia og Evan Turner var með ellefu stig og tíu fráköst.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×