Körfubolti

Miami Heat í úrslit Austurdeildar | Wade fór á kostum

Dwayne Wade og LeBron James fóru á kostum í liði Miami Heat í gær.
Dwayne Wade og LeBron James fóru á kostum í liði Miami Heat í gær. AP
Miami Heat leikur til úrslita í Austurdeild NBA deildarinnar í körfuknattleik eftir 105- 93 sigur gegn Indiana Pacers á útivelli. Þetta var fjórði sigurleikur Miami Heat í einvíginu gegn Indiana Pacers en rimman endaði 4-2. Miami mætir sigurliðinu úr viðureign Boston Celtics og Philadelphia 76'ers en þau lið mætast í oddaleik um hvort liðið kemst í úrslit Austurdeildar.

LeBron James og Dwayne Wade skoruðu samtals 69 stig fyrir Miami Heat, þar af skoraði Wade 41. Hann hitti úr 17 af alls 25 skotum sínum utan af velli og þar að auki tók hann 10 fráköst. James skoraði 10 stig af alls 28 í fjórða leikhluta. Allir byrjunarliðsmenn Indiana skoruðu meira en 10 stig en David West var þeirra stigahæstur með 24 stig.

Wade og James skoruðu samtals 258 stig í sex leikjum gegn Indiana sem gerir 64,5 stig að meðaltali í leik. Til samanburðar skoraði allt byrjunarlið Indiana 63,2 stig að meðaltali í leikjunum sex.

Mario Chalmers skoraði 15 stig fyrir Miami Heat og Mike Miller skoraði 12 stig með fjórum þriggja stiga körfum.

Boston og Philadelpia mætast í oddaleik á laugardaginn um hvort liðið leikur til úrslita í Austurdeildinni en staðan er 3-3 í einvíginu.

Á sunnudaginn hefjast úrslitin í Vesturdeildinni þar sem að Oklahoma City Thunder og San Antonio Spurs mætast.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×