Körfubolti

Kyrie Irving nýliði ársins í NBA-deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kyrie Irving.
Kyrie Irving. Mynd/Nordic Photos/Getty
Bandarískir fjölmiðlar hafa grafið það upp að Kyrie Irving, leikmaður Cleveland Cavaliers, verði í vikunni útnefndur besti nýliði tímabilsins í NBA-deildinni í körfubolta.

LeBron James var krýndur besti leikmaðurinn í gær en þau verðlaun eru vanalega afhent á eftir nýliða ársins. Kyrie Irving hefur verið staddur á Bahamaeyjum að undanförnu og því var beðið með verðlaunin fyrir besta nýliðann.

Það kemur engum á óvart að Kyrie Irving skuli fá þennan heiður enda stóð hann vel undir nafni eftir að hafa verið kosinn fyrstur í nýliðavalinu síðasta sumar. Hann fékk helst samkeppni frá Ricky Rubio hjá Minnesota Timberwolves en hún var úr sögunni eftir að Rubio sleit krossband í mars.

Kyrie Irving var með 18,5 stig, 5,4 stoðsendingar og 47 prósent skotnýtingu á þessu tímabili. Hann stal auk þess 1,1 bolta í leik og setti niður 39,9 prósent þriggja stiga skota sinna.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×