Körfubolti

Derrick Rose gæti misst af öllu næsta tímabili

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Derrick Rose.
Derrick Rose. Mynd/Nordic Photos/Getty
Derrick Rose sleit krossband í fyrsta leik Chicago Bulls í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfubolta og í framhaldinu datt Bulls-liðið óvænt út úr fyrstu umferð.

Læknirinn sem skar upp Rose segir að leikmaðurinn verði frá í allt að eitt ár. Það eru því líkur á því að Rose missi af öllu næsta tímabili. Það væru hræðilegar fréttir fyrir Chicago Bulls.

„Það getur tekið hann átta til tólf mánuði að koma til baka. Stundum gengur þetta hraðar og stundum hægar. Það gæti samt tekið hann meira en ár að komast í það leikform sem hann var í fyrir meiðslin," sagði Dr. Brian Cole.

Cole telur að Rose geti komið aftur í janúar eða febrúar 2013 ef allt gengur upp en varar menn við of mikilli bjartsýni. „Hann gæti misst af öllu tímabilinu. Aðgerðin gekk samt allt mjög vel og Derrick líður vel," sagði Cole.

Derrick Rose var valinn besti leikmaður NBA-deildarinnar 2010-11 en missti mikið úr á þessu tímabili vegna meiðsla. Bulls-liðið spjaraði sig án hans alla deildarkeppnina en leikur liðsins hrundi eftir að hann meiddist í fyrsta leik úrslitakeppninnar.





NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×