Körfubolti

NBA: Útlitið svart hjá Miami eftir skell á móti Indiana

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James og Dwyane Wade ganga hér niðurlútir af velli.
LeBron James og Dwyane Wade ganga hér niðurlútir af velli. Mynd/AP
Indiana Pacers er komið í 2-1 á móti Miami Heat eftir öruggan 94-75 sigur í þriðja leik liðanna í undanúrslitum Austurdeildar NBA-deildarinnar í körfubolta í Indianapolis í nótt. Indiana hefur þar með unnið tvo leiki í röð og útliðið er orðið svart hjá Miami-liðinu.

„Við verðum bara að vinna á sunnudaginn," sagði LeBron James eftir leikinn en hann var með 22 stig í leiknum. Dwyane Wade átti aftur á móti skelfilegan dag, skoraði ekki í fyrri hálfleiknum og endaði með aðeins 5 stig. Mario Chalmers var stigahæstur með 25 stig en liðið saknaði Chris Bosh undir körfunum.

„Við finnum það að við getum unnið þetta einvígi," sagði Frank Vogel, þjálfari Indiana en eins og áður voru margir að skila til liðsins. George Hill skoraði 20 stig, Roy Hibbert var með 19 stig (18 fráköst og 5 varin), Danny Granger skoraði 17 stig og David West var með 14 stig. Vogel hrósaði Hibbert sérstaklega eftir leikinn. „Þetta er einn besti leikurinn sem ég hef séð hann spila," sagði Vogel.

Dwyane Wade klikkaði á fyrstu sex skotunum sínum og hitti aðeins úr 2 af 13 skotum sínum í leiknum. „Ég þarf augljóslega að skoða upptökuna af leiknum og sjá hvað gerðist. Ég klikkaði á skotum í byrjun og hélt síðan áfram að klikka á skotum. Ég þarf að vera grimmari en þeir eiga hrós skilið því þeir stóðu sig vel þegar ég keyrði upp að körfunni," sagði Dwyane Wade.

Indiana Pacers lagði grunninn að sigrinum með 17-3 spretti í þriðja leikhlutanum sem skilaði liðoinu 64-50 forystu. „Það er augljóst að við vinnum ekki körfuboltaleiki þegar Chris Bosh er meiddur og ég skora bara fimm stig," sagði Wade en þetta var fyrsta sinn í 95 leikjum í úrslitakeppni þar sem að hann skorar ekki í fyrri hálfleik.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×