Körfubolti

NBA: Góður afmælisdagur hjá Parker - 16. sigur San Antonio í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tony Parker og Tim Duncan.
Tony Parker og Tim Duncan. Mynd/AP
Tony Parker hélt upp á þrítugsafmælið með því að skora 22 stig og hjálpa sínum mönnum í San Antonio Spurs að vinna Los Angeles Clippers með 17 stiga mun, 105-88, og ná 2-0 forystu í einvígi liðanna í undanúrslitum Vesturdeildar NBA-deildarinnar í körfubolta í nótt.

San Antonio Spurs er þar með búið að vinna sextán leiki í röð, síðustu 10 leikina í deildarkeppninni og svo fyrstu sex leiki sína í úrslitakeppninni en auk þess að vinna tvo fyrstu leikina á móti Clippers þá sópaði liðið út Utah Jazz 4-0 í fyrstu umferðinni.

Tim Duncan skoraði 18 stig fyrir San Antonio og Boris Diaw var með 16 stig. Duncan er í góðum gír sem skipir Spurs miklu máli. „Mér líður ótrúlega vel og betur en undanfarin fjögur eða fimm ár," sagði Tim Duncan eftir leikinn en hann er að elta fimmta meistaratitilinn sinn.

Tony Parker var maður dagsins og setti tóninn fyrir sína menn. Báðir þjálfarar liðanna hrósuðu honum eftir leikinn. „Tony sá um þetta að mestu. Hann spilaði frábærlega varnarlega og stóð sig mjög vel," sagði Gregg Popovich en auk stiganna þá spilaði Parker góða vörn á Chris Paul sem tapaði meðal annars 8 boltum í leiknum.

„Tony er búinn að eiga frábært ár. Það er erfitt að ráða við hann á opnum velli og hann er með mörg vopn. Við verðum samt að standa okkur betur á móti honum," sagði Vinny Del Negro, þjálfari Los Angeles Clippers. Blake Griffin skoraði mest fyrir Clippers eða 20 stig en hann tók bara eitt frákast í öllum leiknum. Chris Paul var með 10 stig og 5 stoðsendingar.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×