Körfubolti

NBA: Lakers minnkaði muninn og Philadelphia jafnaði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kobe Bryant og Derek Fisher.
Kobe Bryant og Derek Fisher. Mynd/Nordic Photos/Getty
Tveir leikir fóru fram í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfubolta í nótt og jókst spennan í báðum einvígum. Philadelphia 76 ers lét ekki slæma byrjun slá sig út af laginu og vann Boston Celtics 92-83 og þá tókst Los Angeles Lakers að enda sex leikja sigurgöngu Oklahoma City og minnka muninn í 2-1.

Kobe Bryant skoraði 8 af 10 síðustu stigum Los Angeles Lakers í 99-96 sigri á Oklahoma City Thunder. Bryant hitti aðeins úr 9 af 25 skotum utan af velli en endaði með 36 stig, 7 fráköst og 6 stoðsendingar. Hann hitti úr öllum 18 vítum sínum í leiknum. Andrew Bynum var með 15 stig og 11 fráköst og Pau Gasol bætti við 12 stigum. 11 fráköstum og 6 stoðsendingum.

Kevin Durant skoraði 31 stig fyrir Thunder en klikkaði á lokaskoti leiksins sem var reyndar af löngu færi. Russell Westbrook og James Harden skoruðu báðir 21 stig fyrir Oklahoma City.

„Við gerðum vel í að stjórna hraða leiksins og láta finna fyrir okkur," sagði Kobe Bryant en hann skoraði 14 stig í fjórða leikhlutanum. „Þetta er ekki þreytandi heldur bara krefjandi og skemmtilegt," sagði Bryant þegar hann var spurður út í álagi en næsti leikur er strax í kvöld.

Þetta leit ekki alltof vel út þegar Thunder komst í 92-87 þegar aðeins þrjár mínútur voru eftir. Lakers-liðið endaði leikinn hinsvegar á 12-4 spretti og settu meðal annars niður sex víti á síðustu 33 sekúndum leiksins.

Boston Celtics komst í 14-0 og var með 18 stiga forskot í byrjun þriðja leikhluta en það dugði samt ekki til sigurs á móti Philadelphia 76 ers. Sixers-liðið vann síðustu 23 mínúturnar 61-34 og tryggði sér 92-83 sigur en staðan er því 2-2 í einvíginu. Boston skoraði ekki síðustu 98 sekúndurnar og á meðan skoraði Philadelphia níu síðustu stig leiksins.

Andre Iguodala og Evan Turner voru báðír með 16 stig hjá Philadelphia 76ers og Lou Williams kom með 15 stig og 8 stoðsendingar inn af bekknum. Paul Pierce skoraði 24 stig fyrir Boston en Kevin Garnett var aðeins með 9 stig og tapaði auk þess 7 boltum. Rajon Rondo var síðan með 15 stig og 15 stoðsendingar.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×