Körfubolti

NBA: Meistaralið Dallas í slæmri stöðu gegn Oklahoma

Dirk Nowitzki reynir að skora gegn Oklahoma í nótt.
Dirk Nowitzki reynir að skora gegn Oklahoma í nótt. AP
Dirk Nowitzki og félagar hans í meistaraliði Dallas Mavericks virðast ætla að fara fljótlega í sumarfrí en liðið er 2-0 undir gegn Oklahoma í fyrstu umferð úrslitakeppninnar í NBA deildinni. Dallas tapaði 102-99 á útivelli í nótt þar sem að Russell Westbrook skoraði 29 stig fyrir Oklahoma og Kevin Durant skoraði 25. Nowitzki skoraði 31 stig fyrir Dallas sem fagnaði sínum fyrsta og eina titli í sögu félagsins fyrir ári síðan. Næstu tveir leikir fara fram í Dallas en það lið sem fyrr vinnur fjóra leiki kemst í undanúrslit Vesturdeildar.

Dallas var með yfirhöndina fyrir lokaleikmínútuna líkt og í fyrsta leiknum. Oklahoma snéri hlutunum sér í hag og hefur liðið tryggt sigurinn á lokasekúndunum í báðum leikjunum fram til þessa.

„Við nýttum ekki færin okkar, við fengum færi til þess að klára þetta en Oklahoma hefur skorað einni körfu meira en við í báðum leikjunum. Þannig er körfuboltinn," sagði Rick Carlisle þjálfari Dallas.

Durant skoraði úr vítaskotum þegar 50 sekúndur voru eftir leiknum og James Harden hitti úr öllum fjórum vítaskotum sínum á lokasekúndum leiksins.

Þrír leikir fara fram í úrslitakeppninni í kvöld:

Vesturdeild:

LA Lakers - Denver (1-0)

Austurdeild:

Chicago - Philadelphia (1-0)

Atlanta - Boston (1-0)

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×