Körfubolti

NBA: Góðir sigrar hjá Boston og Philadelphia á útivelli

Paul Pierce og Jannero Pargo leikmaður Atlanta berjast um boltann.
Paul Pierce og Jannero Pargo leikmaður Atlanta berjast um boltann. AP
Tveir leikir fóru fram í nótt í átta liða úrslitum Austurdeildar í NBA deildinni í körfuknattleik. Philadelphia 76'ers jafnaði metin gegn Chicago Bulls með 109-92 sigri á útivelli. Boston gerði slíkt hið sama með 87-80 sigri gegn Atlanta á útivelli. Staðan er jöfn í báðum þessum viðureignum, 1-1, en það lið sem fyrr vinnur fjóra leiki kemst í undanúrslit.

Jrue Holiday skoraði 26 stig og Lou Williams bætti við 20 stigum fyrir Philadelphia 76'ers í 109-92 sigri liðsins á útivelli gegn Chicago Bulls. Chicago var með besta árangur allra liða í NBA deildinni í vetur lék án Derrick Rose sem meiddist alvarlega á hné í fyrsta leiknum gegn 76'ers.

Rose tók þátt í leiknum með því að ganga fram á leikvöllinn í upphafi leiksins þar sem hann afhenti dómurum leiksins keppnisboltann. Leikstjórnandinn fékk gríðarlega góðar mótttökur hjá stuðningsmönnum liðsins en hann sleit krossband í vinstra hné og verður frá í 6-8 mánuði. Rose missti af 27 leikjum á þessu tímabili vegna meiðsla og Chicago vann 18 af þeim leikjum.

Næstu tveir leikir fara fram í Phialdelphia. Evan Turner skoraði 19 stig fyrir Philadelphia, en hann tók einnig 7 fráköst og gaf 6 stoðsendingar.

Joakim Noah var stigahæstur í liði Chicago með 21 stig og 8 fráköst. John Lucas skoraði 15.

Paul Pierce var allt í öllu í liði Boston Celtics í 87-80 sigri liðsins gegn Atlanta á útivelli. Staðan er jöfn, 1-1, og næstu tveir leikir fara fram í Boston. Boston lék án Rajon Rondo sem tók út leikbann en hann ýtti við einum dómara í fyrsta leiknum gegn Atlanta.

Atlanta náði góðu forskoti seint í þriðja leikhluta, 65-54, en Boston náði að minnka muninn jafnt og þétt og komast yfir 79-72 þegar um 3 mínútur voru eftir af leiknum.

Kevin Garnett skoraði 15 stig og tók 12 fráköst fyrir Boston. Joe Johnson var stigahæstur í liði Atlanta með 22 stig.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×