Körfubolti

NBA í nótt: Miami og Oklahoma City komin í 3-0

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Chris Bosh, JR Smith og Carmelo Anthony í baráttunni í nótt.
Chris Bosh, JR Smith og Carmelo Anthony í baráttunni í nótt. Mynd/AP
New York Knicks tapaði í nótt sínum þrettánda leik í röð í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfubolta. Það er met.

Miami vann New York, 87-70, og er þar með komið í 3-0 forystu í rimmunni. New York vann síðast leik í úrslitakeppni árið 2001 en með tapinu í nótt bætti liðið sex ára gamalt met Memphis.

LeBron James skoraði 32 stig fyrir Miami, þar af sautján í síðasta leikhlutanum. Dwyane Wade bætti við 20 stigum og Mario Chalmers var með nítján.

Hjá New York var Carmelo Anthony stigahæstur með 22 stig en hann nýtti aðeins sjö af 23 skotum sínum í leiknum. Amare Stoudeire, Jeremy Lin og Iman Shumpert eru allir frá vegna meiðsla.

Oklahoma City er einnig komið í 3-0 í sinni rimmu en liðið er þar með á góðri leið með að sópa núverandi meisturum, Dallas Mavericks, úr leik í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.

Leikurinn í nótt fór fram í Dallas og vann Oklahoma City öruggan sigur, 95-79. Kevin Durant var með 31 stig og frábæra skotnýtingu - ellefu af fimmtán skotum.

Russell Westbrook var með 20 stig, Serge Ibaka tíu og ellefu fráköst. James Harden og Derek Fisher voru með tíu stig hvor.

Hjá Dallas var Dirk Nowitzky stigahæstur með sauitján stig en Jason Kidd var með tólf.

Engu liði í sögu NBA-deildarinnar hefur tekist að vinna rimmu í úrslitakeppni eftir að hafa lent 3-0 undir. Sex ár eru síðan að meisturum var sópað 4-0 úr fyrstu umferð úrslitakeppninnar en það gerðist hjá Miami árið 2006.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×