Körfubolti

NBA í nótt: Chicago tapaði aftur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Carlos Boozer í leiknum í nótt.
Carlos Boozer í leiknum í nótt. Mynd/AP
Efsta lið Austurdeildarinnar, Chicago Bulls, er í tómum vandræðum eftir að hafa tapað aftur fyrir Philadelphia 76ers í nótt. Philadelphia er þar með komið yfir, 2-1, í rimmu liðanna í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfubolta.

Munar þar mestu um fjarveru Derrick Rose sem sleit krossband í hné á dögunum. Til að bæta gráu á svart meiddist Joakim Noah í þriðja leikhluta. Hann sneri aftur í þeim fjórða en virtist ekki heill heilsu.

Leiknum í nótt lauk með fimm stiga sigri Philadelphia, 79-74. Spencer Hawes var með 21 stig og tók níu fráköst þar að auki.

Philadelphia skoraði þó aðeins ellefu stig í þriðja leikhluta og Chicago var með forystuna í upphafi þess fjórða. En Hawes og félagar reyndust sterkari á lokasprettinum.

Carlos Boozer var með átján stig og tíu fráköst fyrir Chicago. Richard Hamilton var með sautján stig. Fjórði leikur liðanna í rimmunni er annað kvöld.

Boston vann Atlanta, 90-84, í framlengdum leik. Rajon Rondo, sem var í banni í síðasta leik, sneri aftur og náði þrefaldri tvennu - sautján stigum, fjórtán fráköstum og tólf stoðsendingum.

Þetta var í sjöunda sinn á ferlinum sem Rondo nær þrefaldri tvennu í úrslitakeppninni. Ray Allen sneri einnig til baka eftir að hafa verið frá vegna meiðsla í mánuð. Hann skoraði þrettán stig. Kevin Garnett var með 20 stig og þrettán fráköst - Paul Pierce 21 stig.

Hjá Atlanta var Joe Johnson með 29 stig og Jeff Teague 23 stig.

Denver vann LA Lakers, 99-84, og minnkaði þar með muninn í rimmu liðanna í 2-1. Sigurinn var öruggur og komst Denver snemma 24 stigum yfir í leiknum.

Ty Lawson var með 25 stig og JaVale McGee sextán stig og fimmtán fráköst.

Kobe Bryant var með 22 stig fyrir Lakers og Andrew Bynum átján stig og tólf fráköst. Bryant nýtti aðeins sjö af 23 skotum sínum í leiknum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×