Körfubolti

NBA: Utah í úrslitakeppnina og Phoenix sat eftir | Durant stigahæstur

Shannon Brown og Jared Dudley leikmenn Phoenix ganga svekktir af leikvelli eftir tapið gegn Utah.
Shannon Brown og Jared Dudley leikmenn Phoenix ganga svekktir af leikvelli eftir tapið gegn Utah. AP
Utah tryggði sér áttunda sætið í Vesturdeildinni með 100-88 sigri gegn Phoenix í NBA deildinni í körfubolta í gær. Bæði lið áttu möguleika á því sæti fyrir leikinn. Þar með lauk átta leikja taphrinu Utah sem mætir líklega San Antonio í fyrstu umferð úrslitakeppninnar sem hefst um næstu helgi. Utah getur enn endað í 7. sæti ef Denver tapar báðum leikjum sínum sem liðið á eftir.

Joe Johnson skoraði 28 stig fyrir Atlanta í 109-102 sigri gegn LA Clippers. Blake Griffin skoraði 36 stig fyrir LA Clippers sem er það mesta sem hann hefur skorað á tímabilinu. Chris Paul skoraði 34 stig fyrir Clippers.

Kevin Durant skoraði 32 stig fyrir Oklahoma í 118-110 sigri gegn Sacramento. James Harden lék ekki með Oklahoma en hann er enn að jafna sig eftir höfuðhöggið sem hann fékk frá Metta World Peace leikmanni Lakers um helgina. Durant hefur skorað 27,97 stig að meðaltali í leik í vetur og er hann stigahæsti leikmaður deildarinnar, Kobe Bryant kemur þar á eftir en han hefur skorað 27,86 stig að meðaltali fyrir Lakers í vetur. Báðir leikmenn eiga einn leik eftir á tímabilinu.

Lykilmenn Boston og Miami voru hvíldir í 78-66 sigri Boston. LeBron James, Dwyane Wade og Chris Bosh léku ekki með Miami og Ray Allen, Kevin Garnett voru ekki í liði Rajon Rondo. Miami á ekki lengur möguleika á að ná efsta sæti Austurdeildar og verður Chicago Bulls því með heimaleikjaréttinn í gegnum alla úrslitakeppnina í Austurdeildinni.

Úrslit næturinnar:

Atlanta – LA Clippers 109-102

Oklahoma – Sacramento 118-110

Boston – Miami 78-66

Golden State – New Orleans 81-83

Utah – Phoenix 88-100



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×