Körfubolti

Meiðsli Rose alvarleg | Missir af úrslitakeppninni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Rose liggur sárþjáður á vellinum.
Rose liggur sárþjáður á vellinum. Nordic Photos / Getty
Sigur Chicaco Bulls á Philadelphia 76ers í gær reyndist liðinu dýrkeyptur. Derrick Rose, skærasta stjarna liðsins, meiddist á hné undir lok leiksins og nú er ljóst að hann sleit krossband í hné og missir af úrslitakeppninni.

Chicago var tólf stigum yfir og með leikinn í höndum sér þegar Rose keyrði í átt að körfunni. Á leið sinni í sniðskot snerist honum hugur og gaf á samherja áður en hann lendi illa á gólfinu.

Öllum varð ljóst að Rose hafði meiðst á hné. Það var þó ekki fyrr en eftir myndatöku á sjúkrahúsi í gærkvöldi að í ljós kom hve alvarleg meiðsli hans væru. Rose sleit krossband í hné og verður frá keppni í lengri tíma.

Fjölmiðlar vestanhafs hafa ekki einvörðungu fjallað um meiðsli Rose sem mikinn missi fyrir Bulls. Rætt er um hversu mikill happafengur meiðsli hans séu fyrir LeBron James og félaga í Miami.

Að sögn bandarískra fjölmiðla á borð við fréttastofu Yahoo er leið Miami Heat í úrslit NBA-keppninnar greið eftir að Rose meiddist. Miami lagði New York auðveldlega í fyrstu viðureign sinni í úrslitakeppninni í gær.

Leikmenn Chicago eru orðnir vanir því að spila án Rose sem hefur glímt við meiðsli í vetur. Fjarvera hans veikir þó liðið til muna og vonbrigðin mikil fyrir Rose og Chicago sem ætluðu sér stóra hluti í vetur.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×