Körfubolti

Durant með sigurkörfuna gegn Dallas | Óvæntur sigur Orlando

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Durant ásamt James Harden í Oklahoma í gærkvöldi.
Durant ásamt James Harden í Oklahoma í gærkvöldi. Nordic Photos / Getty
Glen Davis lét menn heyra það í gærkvöldi.Nordic Photos / Getty
Kevin Durant reyndist hetja Oklahoma Thunderbirds í eins stigs sigri á Dallas Mavericks í fyrstu viðureign liðanna í úrslitakeppninni. Durant skoraði sigurkörfuna 1,5 sekúndum fyrir leikslok.

Leikurinn í Oklahoma var æsispennandi og Dirk Nowitzki kom Dallas stigi yfir með tveimur vítaskotum níu sekúndum fyrir leikslok. Það var hins vegar nægur tími fyrir Durant að tryggja heimamönnum sigurinn.

Undir mikilli pressu varnarmanna Dallas náði hann skoti sem tók sinn tíma að fara ofan í. Af hringnum skoppaði knötturinn í spjaldinu áður en hann hafnaði í körfunni við mikinn fögnuð heimamanna.

Russel Westbrook skoraði mest allra eða 28 stig en Durant kom næstur heimamanna með 25 stig. Hjá Dallas skoraði Nowitzki 25 stig, þar af 11 á síðustu fimm mínútunum. Þau dugðu þó ekki til.

Oklahoma leiðir í einvíginu 1-0.

Orlando kom öllum á óvart gegn Indiana

Orlando Magic, sem leikur án Dwight Howards, kom öllum á óvart og vann 81-77 stiga sigur í fyrstu viðureign sinni gegn Indiana Pacers sem fram fór í Indianapolis í gærkvöldi.

„Þið eruð eitt stórt spurningamerki," öskraði Glen Davis miðherji Orlando til áhorfendaskarans þegar hann yfirgaf leikvöllinn. Davis tók stöðu Howard og stóð sig vel. Skoraði 16 stig og tók 13 fráköst.

Orlando verður án Howard í úrslitakeppninni en miðherjinn stæðilegi gekkst undir uppskurð á baki á dögunum.

Orlando leiðir í einvíginu 1-0 en næst verður leikið í Flórída-fylki.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×