Sport

Sjöundi sigur Nadal í Barcelona

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hvar Nadal ætlar að geyma bikarinn á enn eftir að koma í ljós.
Hvar Nadal ætlar að geyma bikarinn á enn eftir að koma í ljós. Nordic Photos / Getty
Rafael Nadal tryggði sér sigur á Opna Barcelona-mótinu í tennis þegar hann lagði landa sinn David Ferrer að velli í tveimur settum, 7-6 og 7-5.

Þetta var í sjöunda skiptið sem Nadal vinnur sigur á mótinu. Hann varð um leið sá fyrsti í sögunni til þess að vinna tvö viðurkennd mót sjö sinnum.

Nadal, sem líður hvergi betur en á leirvellinum, sagði leikinn hafa verið sérstaklega erfiðan.

„Þetta var án nokkurs vafa erfiðasti leikur minn frá upphafi leirtímabilsins," sagði Nadal en með hækkandi sól færa tenniskappar í Evrópu sig yfir á leirvellina.

Nadal hrósaði landa sínum og andstæðingi, David Ferrer, í hástert. Þetta var í fjórða skiptið sem kapparnir mættust í úrslitum mótsins.

„David hefði átt fyllilega skilið að vinna titilinn. ÉG óska honum alls hins besta í framhaldinu," sagði Nadal sem tryggði sér sinn 48. titil á ferlinum en Spánverjinn er 25 ára.

Af titlunum 48 hafa 34 þeirra unnist á leirvöllum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×