Körfubolti

NBA í nótt: Lakers vann án Kobe | Utah stöðvaði San Antonio

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Pau Gasol í leiknum í nótt.
Pau Gasol í leiknum í nótt. Mynd/AP
Kobe Bryant missti af sínum öðrum leik í röð með LA Lakers en liðið vann engu að síður sigur á New Orleans á útivelli í NBA-deildinni í körfubolta í nótt, 93-91.

Pau Gasol skoraði 25 stig fyrir Lakers og tók þar að auki níu fráköst. Ramon Sessions gekk ágætlega að fylla í skarð Bryant en hann skoraði sautján stig í leiknum og mikilvæga þriggja stiga körfu þegar skammt var til leiksloka.

Lakers hafði tapað síðustu tveimur leikjum sínum og var mest átta stigum undir í fjórða leikhluta. En liðið náði að vinna sigur með góðum lokaspretti.

Carl Landry skoraði 20 stig og tók ellefu fráköst fyrir New Orleans. Marco Belinelli var einnig með 20 stig.

Memphis vann LA Clippers, 94-85, og þar með sinn áttunda sigur í síðustu tíu leikjum sínum. Marc Gasol var með átján stig fyrir Memphis og Rudy Gay sextán.

Hjá Clippers var Chris Paul stigahæstur með 21 stig en Blake Griffin kom næstur með nítján stig.

Utah vann San Antonio, 91-84. Devin Harris skoraði 25 stig, þar af ellefu í röð í fjóðra leikhluta. San Antonio hafði unnið ellefu leiki í röð.

Gregg Popovich, þjálfari San Antonio, ákvað að hvíla þá Tim Duncan, Tony Parker og Manu Ginobili í leiknum. Það hafði sitt að segja.

Utah er í tíunda sæti Vesturdeildarinnar en er ekki langt frá áttunda sætinu. Þar situr Denver nú.

Úrslit næturinnar:

Charlotte - Washington 85-113

Orlando - Detroit 119-89

Indiana - Toronto 103-98

Milwaukee - Oklahoma 89-109

Memphis - LA Clippers 94-85

New Orleans - LA Lakers 91-93

Minnesota - Phoenix 90-114

Denver - Golden State 123-84

Utah - San Antonio 91-84

Portland - Houston 89-94

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×