Körfubolti

NBA í nótt: Boston vann Miami

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kevin Garnett og Rajon Rondo fagna í nótt.
Kevin Garnett og Rajon Rondo fagna í nótt. Mynd/AP
Rajon Rondo fór mikinn þegar að Boston vann sigur á sterku liði Miami, 115-107, í NBA-deildinni í nótt. Alls fóru sex leikir fram í deildinni í nótt.

Rondo skoraði átján stig og gaf fimmtán stoðsendingar þar að auki. Er það átjándi leikurinn í röð sem Rondo nær minnst tíu stoðsendingum og eru 20 ár síðan leikmaður náði slíkum spretti í NBA-deildnni.

Leikmenn Boston voru með 61 prósenta skotnýtingu í leiknum sem er það besta sem leikmenn liðsins hafa náð á tímabilinu. Paul Pierce var stigahæstur með 27 stig og Kevin Garnett bætti við 24 stigum.

Hjá Miami var LeBron James stigahæstur með 36 stig auk þess sem hann tók sjö fráköst og gaf sjö stoðsendingar.

Chicago er í efsta sæti Austurdeildarinnar og nú með þriggja sigra forystu á Miami sem er í öðru sæti. Boston er nú í fjórða sæti Austursins.

Chicago vann New York, 98-86, þrátt fyrir að Derrick Rose hafi misst af leiknum vegna meiðsla. Richard Hamilton skoraði 20 stig fyrir Chicago og Luol Deng nítján.

Dallas vann Sacramento, 110-100, þar sem sex leikmenn NBA-meistaranna í Dallas skoruðu minnst tíu stig í leiknum. Dallas er í sjöunda sæti Vesturdeildarinnar eftir misjafnt gengi að undanförnu.

Úrslit næturinnar:

Washington - Orlando 93-85

Miami - Boston 107-115

Cleveland - Charlotte 103-90

New Jersey - Philadelphia 88-107

Dallas - Sacramento 110-100

Chicago - New York 98-86

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×