Körfubolti

Verður liðið hans Jordans það lélegasta í sögu NBA deildarinnar?

Paul Silas er þjálfari Charlotte Bobcats.
Paul Silas er þjálfari Charlotte Bobcats. AP
Charlotte Bobcats er á góðri leið með að slá met í NBA deildinni sem ekkert lið vill eiga. Bobcats, sem er í eigu Michael Jordan, er aðeins með 10,6% vinningshlutfall í deildarkeppninni í vetur og er það slakasti árangur allra tíma. Það eru aðeins sex leikir eftir hjá Charlotte Bobcats á leiktíðinni og ef liðið tapar þeim öllum þá slær það met sem er í eigu Philadelphia 76ers frá tímabilinu 1972-1973 þegar liðið var með aðeins 11% vinningshlutfall.

Keppnistímabilið í NBA deildinni 2011-2012 er óvenjulegt þar sem að verkbann s.l. haust varð til þess að aðeins 66 leikir er á dagskrá hjá hverju liði á tímabilinu í stað 82. Vinningshlutfallið er samt sem áður staðreynd sem forráðamenn Charlotte og leikmenn liðsins geta ekki forðast.

Matt Carroll leikmaður Charlotte sagði í viðtali við AP fréttastofuna að leikmenn liðsins vilji ekki eiga það á hættu að skrifa nýja kafla í sögu NBA deildarinnar. „Það vill enginn eiga þátt í því að vera hluti af lélegasta liði allra tíma í NBA deildinni. Við þurfum bara einn sigur og ég held að menn séu að átta sig á því að þetta getur gerst. Þegar fyrst var talað um þetta fyrir nokkrum vikum þá trúði því enginn að þetta gæti gerst," sagði Carroll.

Charlotte er hinsvegar ekki líklegt til þess að breyta stöðu liðsins í kvöld þegar liðið mætir Chicago Bulls á heimavelli. Chicago er með besta vinningshlutfallið í deildinni 75% en Charlotte hefur tapað 17 leikjum í röð.

Leikirnir sem Charlotte á eftir eru gegn:Chicago, Memphis, Sacramento, Washington, Orlando og New York.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×