Körfubolti

NBA: Lengsta sigurganga Los Angeles Clippers í tvo áratugi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AP
Los Angeles Clippers vann sinn sjötta leik í röð í NBA-deildinni í körfubolta í nótt, Chicago Bulls tapaði í fyrsta sinn tveimur leikjum í röð í vetur og Memphis Grizzlies vann Oklahoma City Thunder á útivelli.

Randy Foye skoraði 28 stig og setti niður átta þriggja stiga körfur þegar Los Angeles Clippers vann öruggan 94-75 útisigur á NBA-meisturunum í Dallas Mavericks. Þetta var sjötti sigur Clippers í röð og er lengsta sigurganga liðsins síðan í mars 1992. Blake Griffin var með 15 stig og 16 fráköst hjá Clippers en Dirk Nowitzki skoraði 19 stig fyrir Dallas.

Goran Dragic skoraði 21 stig og Luis Scola var með 18 stig og 12 fráköst þegar Houston Rockets vann Chicago Bulls 99-93 á útivelli. Þetta var í fyrsta sinn í vetur sem Chicago-liðið tapar tveimur leikjum í röð en liðið tapaði fyrir Oklahoma City kvöldið áður. Luol Deng skoraði 24 stig fyrir Chicago og Carlos Boozer var með 16 stig og 13 fráköst. Derrick Rose, leikstjórnandi Chicago Bulls, missti af ellefta leiknum í röð vegna nárameiðsla.

O.J. Mayo var með 22 stig þegar Memphis Grizzlies vann Oklahoma City Thunder 94-88 á útivelli og endaði þar með sex leikja sigurgöngu Thunder-liðsins. Tony Allen skoraði 15 stig og Marc Gasol var með 13 stig fyrir Memphis en hjá Oklahoma City skoraði Kevin Durant mest eða 21 stig og Russell Westbrook var með 19 stig.

Tyreke Evans skoraði 24 stig, tók 10 fráköst og gaf 7 stoðsendingar þegar Sacramento Kings vann Minnesota Timberwolves 116-108. Minnesota-liðið er að gefa mikið eftir en þetta var þriðja tapið í röð og jafnframt það fjórða í síðustu fimm leikjum. Kevin Love var með 23 stig og 7 fráköst fyrir Timberwolves-liðið.

Úrslit allra leikja í NBA-deildinni í nótt:

Washington Wizards - Milwaukee Bucks 98-112

Chicago Bulls - Houston Rockets 93-99

Oklahoma City Thunder - Memphis Grizzlies 88-94

Dallas Mavericks - Los Angeles Clippers 75-94

Sacramento Kings - Minnesota Timberwolves 116-108

Portland Trail Blazers - Utah Jazz 97-102

Staðan í NBA-deildinni:Á nba.com eða yahoo.com

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×