Körfubolti

NBA: Orlando tapaði fimmta leiknum í röð | Chicago vann Boston

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stan van Gundy og Dwight Howard.
Stan van Gundy og Dwight Howard. Mynd/AP
Fjórir leikir fóru fram í NBA-deildinni í körfubolta í nótt og hrunið virðist vera algjört hjá liði Orlando Magic sem tapaði þá fimmta leiknum í röð. Los Angeles Clippers var fljótt að jafna sig eftir tapið fyrir Lakers og Chicago Bulls vann Boston Celtics án Derrick Rose.

Carmelo Anthony skoraði 19 stig og Tyson Chandler var með 12 stig og 12 fráköst þegar New York Knicks vann 96-80 útisigur á Orlando Magic. Orlando tapaði sínum fimmta leik í röð og það hefur ekki gerst síðan 2007. J.R. Smith og Toney Douglas voru báðir með 15 stig hjá New York. Jason Richardson skoraði 16 stig fyrir Orlando og Glen Davis var með 15 stig. Dwight Howard var aðeins með 8 stig og 8 fráköst í leiknum en fyrr um daginn hafði Stan Van Gundy, þjálfari liðsins, greint frá því að Howard hefði heimtað að hann yrði rekinn.

Luol Deng skoraði 18 af 26 stigum sínum í seinni hálfleik og Joakim Noah var með 17 stig og 9 fráköst þegar Chicago Bulls vann Boston Celtics 93-86. Boston komst 13 stigum yfir í fyrri hálfleik en Bulls-liðið fór í gang í þeim seinni og endaði tveggja leikja taphrinu sína. Paul Pierce skoraði 22 stig fyrir Boston sem tapaði öðrum leiknum í röð en hafði áður unnið fimm leiki í röð. Derrick Rose, leikstjórnandi Chicago Bulls missti af 22. leiknum sínum á tímbilinu en Bulls-liðið hefur unnið 15 af þessum 22 leikjum þar af 8 af 12 síðan að hann meiddist á nára.

Blake Griffin vaknaði á síðustu stundu og skoraði þrjár körfur í lokin þegar Los Angeles Clippers vann Sacramento Kings 93-84. Griffin endaði með 14 stig og 9 fráköst en Randy Foye var með 20 stig og Chris Paul bætti við 13 stigum og 8 stoðsendingum. Sex leikja sigurganga Clippers endaði með tapi á móti Los Angeles Lakers kvöldið áður en liðin eru að berjast um sigurinn í Kyrrahafsriðlinum.

Greg Monroe skoraði 18 stig og Rodney Stuckey var með 15 stig þegar Detroit Pistons vann 99-94 sigur á Washington Wizards. John Wall skoraði 28 stig og gaf 10 stoðsendingar hjá Washington og Kevin Seraphin var með 15 stig.

Úrslit allra leikja í NBA-deildinni í nótt:

Orlando Magic - New York Knicks 80-96

Detroit Pistons - Washington Wizards 99-94

Chicago Bulls - Boston Celtics 93-86

Sacramento Kings - Los Angeles Clippers 85-93

Staðan í NBA-deildinni:Á nba.com eða yahoo.com

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×