Körfubolti

Sonur Doc Rivers ætlar að fara strax í NBA-deildina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Austin Rivers
Austin Rivers Mynd/AFP
Austin Rivers, sonur Doc Rivers þjálfara Boston Celtics, gæti verið farinn að spila á móti pabba sínum á næsta tímabili í NBA-deildinni. Rivers hefur ákveðið að hætta í Duke-háskólnum eftir aðeins eitt ár og skrá sig í nýliðaval NBA-deildarinnar í júní.

Austin Rivers vakti mikla athygli fyrir frammistöðu sína í háskólaboltanum í vetur en hann skoraði 15,5 stig að meðaltali með Duke-liðinu. Hann varð aðeins þriðji nýliðinn í sögu skólans sem nær því að vera stigahæsti leikmaður liðsins.

Stærsta stund Austin Rivers í vetur var þegar hann tryggði Duke dramatískan sigur á erkifjendum sínum í Norður-Karólínu í febrúar. Hann skoraði þá sigurkörfuna rétt áður en leiktíminn rann út og var alls með 29 stig í leiknum.

Corey Maggette (1999), Luol Deng (2004) og Kyrie Irving (2011) eru allt strákar úr Duke-háskólanum sem hafa hætt eftir aðeins eitt ár en það er ekki búist við að Austin Rivers fari fyrr en í kringum 18. valrétt.

Draft Express hefur sett upp sína spá fyrir nýliðavalið og þar mun Denver Nuggets nota 17. valréttinn til að velja Austin Rivers. Boston á 18. valréttinn samkvæmt spánni og hver veit nema að það fari svo að pabbinn velji strákinn sinn í júní.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×