Sport

Íslensku stelpurnar töpuðu í vítakeppni gegn heimakonum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Íslensku stelpurnar syngja þjóðsönginn gegn Rúmenum í fyrra.
Íslensku stelpurnar syngja þjóðsönginn gegn Rúmenum í fyrra. Mynd / Facebook-síða Íshokkísambandsins
Íslenska kvennlandsliðið í íshokkí beið lægri hlut gegn Suður-Kóreu í B-riðli 2. deildar heimsmeistaramótsins í dag. Framlengingu og vítakeppni þurfti til að fá fram úrslit eftir að jafnt var 1-1 að loknum venjulegum leiktíma.

Kóreska-liðið komst yfir snemma í öðrum leikhluta en Anna Sonja Ágústsdóttir jafnaði metin skömmu síðar. Á heimasíðu íshokkísambandsins kemur fram að leikurinn hafi verið mjög jafn en íslenska liðið verið sterkara ef eitthvað var.

Í vítakeppninni tókst Suður-Kóreu að skora einu sinni en íslensku stelpunum ekki. Íslenska liðið fær þó eitt stig af þremur mögulegum þar sem jafnt var að loknum venjulegum leiktíma.

Íslensku stelpurnar eru því með fjögur stig í riðlinum að loknum tveimur leikjum. Liðið lagði Belga að velli 2-1 í gær.

Steinunn Sigurgeirsdóttir var valin besti leikmaður íslenska liðsins í leiknum í dag en Eva Karvelsdóttir gegn Belgum í gær.

Næsti leikur íslenska liðsins verður gegn Pólverjum á þriðjudag. Ljóst er að við harðan reip verður að draga því Pólverjar hafa unnið báða leiki sína í deildinni, meðal annars 7-0 stórsigur á Belgum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×