Körfubolti

Bynum hetjan í þriðja sigri Lakers á Celtics í röð

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Bynum naut sviðsljóssins í Staples-höllinni.
Bynum naut sviðsljóssins í Staples-höllinni. Nordic Photos / AFP
Los Angeles Lakers lagði erkifjendur sína frá Boston 97-94 í Staples-höllinni í Los Angeles í gærkvöldi. Lakers voru fimm stigum undir þegar tvær og hálf mínúta lifðu leiks. Frábær endasprettur tryggði liðinu sinn þriðja sigur á Celtics í röð.

Liðsmenn Los Angeles Lakers komu gestunum í Boston í opna skjöldu í síðustu sókn sinni í viðureign liðanna í Staples Center í gærkvöld. Aldrei þessu vant átti Kobe Bryant ekki að sjá um málið heldur var stillt upp í leikkerfi fyrir hinn hávaxna Andrew Bynum sem kom Lakers þremur stigum yfir þegar 15 sekúndur lifðu leiks.

Árangurslaust reyndu leikmenn Celtics að spila stórskyttuna Ray Allen uppi í lokasókn sinni í von um þriggja stiga körfu. Rajon Rondo skaut að lokum úr erfiðri stöðu og missti marks.

„Þetta var geggjað. Það var Kobe sem lagði á ráðin fyrir síðustu sóknina," sagði Bynum hæstánægður með að hafa verið leitað til þegar mest lá við. Liðsmenn Lakers eru öllu vanari að fylgjast með og aðstoða hinn magnaða Kobe Bryant í lykilsóknum undir lok leikja en annað var uppi á teningnum í gærkvöldi.

„Við elskum að sigra þetta lið," sagði Bynum sem skoraði 20 stig og tók 14 fráköst. Kobe Bryant var hins vegar maður leiksins með 26 stig, þar af 10 stig í lokaleikhlutanum.

Lakers vann sinn 18 sigur í síðustu 19 heimaleikjum sínum. Þetta var þriðji sigur liðsins á Celtics í röð en liðin mættust í úrslitum NBA-deildarinnar árin 2008 og 2010.

Hér að ofan má sjá nokkrar myndir AFP frá stemmningunni í Staples-Center í gær.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×