Körfubolti

Chris Paul kominn með grímu eins og Kobe

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Chris Paul með grímuna sína.
Chris Paul með grímuna sína. Mynd/AP
Það er spurning hvort grímur fari að komast í tísku í NBA-deildinni í körfubolta. Það er löngu orðið frægt að Kobe Bryant þarf að spila með grímu þessi misserin og núna er Chris Paul, leikstjórnandi Los Angeles Clippers, einnig farinn að spila með grímu.

Kobe Bryant nefbrotnaði í Stjörnuleiknum á dögunum en Chris Paul fékk högg á nefið í leik á móti San Antonio Spurs. Paul lenti þá í Danny Green, leikmanni Spurs.

Chris Paul var með 23 stig og 5 stoðsendingar í fyrsta leiknum með grímuna í nótt en Los Angeles Clippers tapaði þá 93-97 fyrir Golden State Warriors.

„Þetta er pirrandi og alls ekki gott fyrir leikstjórnanda. Ég sé ekki hvernig hann á að geta þetta," sagði Kenyon Martin, liðsfélagi Paul í viðtali við Times-blaðið en Martin þurfti einnig að spila með grímu á sínum tíma. „Hann mun ekki sleppa við stríðni," bætti Martin við í léttum tón.

Chris Paul kom til Los Angeles Clippers fyrir þetta tímabil og er með 20,3 stig og 8,4 stoðsendingar að meðaltali í fyrstu 34 leikjum sínum á tímabilinu.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×