Körfubolti

Bynum og Bryant fóru á kostum í tvíframlengdum leik

Kobe Bryant og félagar hans í Lakers höfðu betur gegn Memphis eftir tvær framlengingar.
Kobe Bryant og félagar hans í Lakers höfðu betur gegn Memphis eftir tvær framlengingar. AP
Andrew Bynum skoraði 37 stig og tók 16 fráköst í 116-111 sigri LA Lakers á útivelli gegn Memphis í NBA deildinni í körfubolta. Úrslitin réðust eftir tvær framlengingar. Kobe Bryant skoraði 22 af alls 34 stigum sínum í síðari hálfleik. Þetta var þriðji sigurleikur Lakers í röð. Spánverjinn Pau Gasol skoraði 14 stig og gaf 8 stoðsendingar í liði Lakers. Yngri bróðir Pay Gasol, Marc Gasol, skoraði 20 stig fyrir Memphis og tók hann 11 fráköst að auki.

Dwight Howard skoraði 24 stig og tók 25 fráköst í 104-98 sigri Orlando gegn grannaliðinu frá Miami. Úrslitin réðust í framlengingu. Jameer Nelson skoraði 25 stig og þar af 12 í fjórða leikhluta og framlengingunni. Þetta er í áttunda sinn á þessu tímabili þar sem Howard nær 20 stigum og 20 fráköstum í sama leiknum. Alls hefur hann gert slíkt í 40 skipti á ferlinum.

Dwyane Wade skoraði 28 stig fyrir Miami, Chris Bosh var með 23 stig. LeBron James skoraði 19, tók 11 fráköst og gaf 8 stoðsendingar.

Denver hafði betur, 118-117, eftir framlengingu gegn Atlanta á heimavelli. Brasilíumaðurinn Nene skoraði 22 stig, Ty Lawson skoraði 21 og tók gaf 7 stoðsendingar fyrir Denver. Joe Johnson skoraði 34 stig fyrir gestina frá Atlanta, Josh Smith skoraði 33 stig sem er met á þessu tímabili. Smith tók 13 fráköst líka.

Oklahoma missti niður 11 stiga forskot á síðustu þremur mínútunum gegn Houston sem hafði betur 104-103. Courtney Lee og Chandler Parsons skoruðu 21 stig hvor. Kevin Durant var stigahæstur í liði Oklahoma með 28 stig.

Dirk Nowtizki skoraði 27 stig í 107-98 sigri meistaraliðs Dallas gegn Washington á heimavelli. Jason Terry skoraði 24 stig fyrir Dallas sem hafði fyrir leikinn tapað 8 af síðustu 10 leikjum sínum í deildinni.

Úrslit frá því í gær.

Memphis – LA Lakers 111-116 (2 framlengingar)

Orlando – Miami 104-98 (framlengt)

Denver – Atlanta 118-117 (framlengt)

Oklahoma – Houston 103-104

Cleveland – Toronto 88-96

Indiana – Portland 92-75

Dallas – Washington 107-98

Sacramento - Golden State 89 -115

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×