Körfubolti

Dwight Howard: Ég vil klára tímabilið með Orlando Magic

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dwight Howard.
Dwight Howard. Mynd/AP
Dwight Howard, miðherji Orlando Magic í NBA-deildinni, hefur verið á leiðinni frá liðinu allt þetta tímabil enda er samningur hans að renna út í sumar og því síðasti möguleiki fyrir Orlando Magic að fá eitthvað fyrir hann.

Fresturinn til að skipta á leikmönnum á þessu NBA-tímabili rennur út á morgun en Dwight Howard gaf það út í gær að hann vilji klára tímabilið með Orlando Magic.

„Ég hef í tvær til þrjár vikur verið að segja þeim sem ráða hjá Magic að ég vilji klára tímabilið með þeim," sagði Dwight Howard eftir sigurleik á stórstjörnuliði Miami Heat í nótt. Howard var með 24 stig og 25 fráköst í leiknum.

„Ég sagði þeim að við eigum góða möguleika á að vinna titilinn og ég vil hjálpa til að koma með meistaratitilnn til Orlando. Ég bað þá um að gefa mér það tækifæri," sagði Howard.

Dwight Howard getur losnað undan síðasta ári samningsins við Orlando Magic sem þýðir að hann gæti samið við hvaða lið sem er í sumar ákveði hann að vera ekki áfram í Orlando.

Dwight Howard er að flestum talinn vera besti miðherji NBA-deildarinnar. Hann er með 21,2 stig, 15,2 fráköst og 2,2 varin skot að meðaltali í leik í NBA-deildinni í vetur. Howard hefur verið kosinn besti varnarmaður NBA-deildarinnar undanfarin þrjú tímabil.





NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×