Körfubolti

Dallas átti í vandræðum með lélegasta lið deildarinnar

Dirk Nowitzki skoraði 27 stig fyrir meistaralið Dallas sem vann upp 14 stiga forskot Charlotte í fyrri hálfleik.
Dirk Nowitzki skoraði 27 stig fyrir meistaralið Dallas sem vann upp 14 stiga forskot Charlotte í fyrri hálfleik. AP
Það var mikið um að vera í NBA deildinni í gær en þá var lokað fyrir leikmannaskipti á þessari leiktíð. Mörg lið mættu því "vængbrotinn“ til leiks. Margir þekktir kappar fengu nýjan vinnustað án þess að óska eftir því. Meistaralið Dallas átti í vandræðum gegn lélegasta liði deildarinnar á heimavelli en Dallas hafði tapað 8 af síðustu 11 leikjum sínum í deildinni.

John Wall, sem er talinn einn efnilegasti leikmaður deildarinnar, skoraði 26 stig og gaf 12 stoðsendingar í 99-89 sigri Washington gegn New Orleans. Washington var áberandi á leikmannamarkaðinum í gær og virtust breytingarnar hafa góð áhrif á liðið sem hefur aðeins unnið 10 leiki í vetur.

Dirk Nowitzki skoraði 27 stig fyrir meistaralið Dallas sem vann upp 14 stiga forskot Charlotte í fyrri hálfleik. Dallas hefur aldrei tapað gegn Charlotte Bobcats í 15 viðureignum. Jason Terry skoraði 18 stig fyrir Dallas sem hafði tapað 8 af síðustu 11 leikjum sínum.

Corey Maggette skoraði 21 stig fyrir Charlotte sem er með þann vafasama heiður að vera með versta árangur allra liða í deildinni – 6 sigrar og 36 töp. Þess má geta að einn besti körfuboltamaður allra tíma, Michael Jordan, er eigandi Charlotte Bobcats.

Kevin Durant skoraði 24 stig og Russel Westbrook skoraði 23 fyrir Oklahoma sem hafði ekki mikið fyrir 103-90 sigri gegn Denver á útivelli. Denver var vængbrotið í þessum leik eftir stór leikmannaskipti. Miðherjinn Nene er farinn frá Denver en Brasilíumaðurinn var sendur til Washington í skiptum fyrir JaVale McGee og Ronny Turiaf sem voru ekki með Denver í nótt.

Úrslit frá því í nótt:

Washington – New Orleans 99-89

Dallas – Charlotte 101-96

Denver – Oklahoma 90-103

Utah – Minnesota 111-105 (eftir framlengingu)

LA Clippers – Phoenix 87-91

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×