Körfubolti

Kobe Bryant: Mjög erfitt að sjá á eftir Derek Fisher

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Derek Fisher og Kobe Bryant.
Derek Fisher og Kobe Bryant. Mynd/Nordic Photos/Getty
Kobe Bryant, leikmaður Los Angeles Lakers, talaði við blaðamenn um brotthvarf Derek Fisher frá félaginu eftir sigurinn á Minnesota Timberwolves í nótt. Fisher og Bryant komu inn í deildina á sama tíma og voru búnir að vera liðsfélagar á þrettán af sextán tímabilum þeirra í NBA. Lakers ákvað hinsvegar að skipta Fisher til Houston Rockters.

„Þetta er mjög erfitt. Ég er ekki vanur þessu því hann hefur verið með mér nær allan minn feril. Þetta er mjög mikil breyting fyrir mig og því frekar skrýtið," sagði Kobe Bryant. Hann og Fisher hafa unnið fimm meistaratitla saman þann síðasta árið 2010.

„Ég hef verið hér lengi og hef á þeim tíma misst marga af mínum bestu vinum eins og Caron [Butler], Ronny Turiaf, Lamar Odom og Derek. Ég hef því gengið í gegnum þetta áður," sagði Bryant.

Derek Fisher var bara með 5,9 stig og 3,3 stoðsendingar að meðaltali með Lakers í vetur og stigaskor hans var að lækka fjórða tímabilið í röð.

Fisher og Bryant hafa talað saman síðan að skiptin fóru fram en vildi ekki tala um hvernig Fisher hafi tekið í það að vera sendur í burtu frá Lakers.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×