Körfubolti

Boston Celtics að reyna að "losna" við Rondo

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rajon Rondo.
Rajon Rondo. Mynd/Nordic Photos/Getty
ESPN hefur heimildir fyrir því að Boston Celtics sé að reyna að skipta út leikstjórnandanum Rajon Rondo en hann er fjórði stigahæsti leikmaður liðsins og einn af bestu leikstjórnendum NBA-deildarinnar í körfubolta.

Það hefur ekki gengið nógu vel hjá Boston-liðinu í vetur en almennt var talið að þetta væri síðasti möguleikinn fyrir "gamla" kjarnann að vinna annan NBA-titil.

Rajon Rondo hefur lent upp á kant við þjálfarann Doc Rivers og þykir ekki auðveldur í samskiptum. Hann hefur engu að síður oftast skilað sínu inn á vellinum en Rondo er með 14,1 stig og 9,6 stoðsendingar að meðaltali í leik í vetur.

Rondo er 26 ára gamall og á því mörg góð ár eftir í NBA-deildinni. Hann hefur misst af leikjum vegna meiðsla og leikbanna en var með þrefalda tvennu (15 stig, 11 fráköst, 10 stoðsendingar) í sigri á Milwaukee Bucks í gær.

Það er síðan önnur saga hvort að Danny Ainge takist að finna lið sem er tilbúið að láta góðan mann fyrir Rondo því það fer ekki á milli mála að Boston þarf á hjálp að halda ætli liðið sér að gera eitthvað á þessu tímabili.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×