Körfubolti

Jeremy Lin fór á kostum | Durant skoraði 51 stig fyrir Oklahoma

Kevin Durant skoraði 51 stig fyrir Oklahoma gegn Denver í gær í NBA deildinni.
Kevin Durant skoraði 51 stig fyrir Oklahoma gegn Denver í gær í NBA deildinni. AP
Jeremy Lin heldur sínu striki hjá New York Knicks í NBA deildinni en nýliðinn skoraði 28 stig og gaf 14 stoðsendingar í 104-97 sigri Knicks gegn meistaraliði Dallas Mavericks í New York í gærkvöld. Þetta var áttundi sigur Knicks í síðustu 9 leikjum. Dirk Nowitzki skoraði 34 stig fyrir Dallas sem hafði unnið sex leiki í röð. Kevin Durant fór á kostum í liði Oklahoma í gær þegar hann skoraði 51 stig.

JR Smith skoraði 15 stig fyrir New York Knicks en þetta var fyrsti leikur hans eftir að hann samdi við Knicks. Smith var samningsbundinn kínversku liði þar sem hann lék á meðan verkbannnið stóð yfir í NBA deildinni s.l. haust.

Miami Heat vann sinn sjötta leik í röð með 90-78 sigri í grannaslagnum gegn Orlando. Dwyane Wade skoraði 27 stig og LeBron James skoraði 25, tók 10 fráköst og gaf 8 stoðsendingar fyrir Miami. Orlando hafði fyrir leikinn unnnið fjóra leiki í röð. Dwight Howard skoraði aðeins 12 stig fyrir Orlando en hann tók 15 fráköst í leiknum.

Boston tapaði gegn Detroit á útivelli, 96-81, en þetta er í annað sinn á síðustu fimm dögum þar sem Detroit hefur betur gegn Boston. Greg Monroe skoraði 17 stig fyrir Detroit, og Rodney Stuckey skoraði 16. Paul Pierce skoraði 18 stig fyrir Boston en Kevin Garnett lék ekki með Boston af persónulegum ástæðum. Rajon Rondo var rekinn af leikvelli undir lok þriðja leikhluta eftir að hafa mótmælt dómi.

Kevin Durant skoraði 51 stig fyrir Oklahoma í 124-118 sigri liðsins gegn Denver á heimavelli. Durant skoraði 31 stig í síðari hálfleik. Þetta er í fyrsta sinn sem stigakóngur s.l. tveggja tímabila skorar 50 stig í NBA deildinni. Russell Westbrook skoraði 40 stig fyrir Oklahoma, og Serge Ibaka skoraði 14 stig, tók 15 fráköst og varði alls 11 skot.

LA Lakers tapaði á útivelli gegn Phoenix, 102-90. Kobe Bryant skoraði 32 stig fyrir Lakers en hann tapaði boltanum 10 sinnum. Jared Dudley skoraði 25 stig fyrir Phoenix, Marcin Gortat skoraði 21 stig og tók 15 fráköst. Steve Nash gaf 14 stoðsendingar fyrir Phoenix.

Úrslit:

New York Knicks – Dallas 104-97

Miami – Orlando 90-78

Detroit – Boston 96-81

Cleveland – Sacramento 93-92

Indiana – Charlotte 108-73

New Jersey – Milwaukee 85-92

Houston – Utah 101-85

Minnesota – Philadelphia 92-91

Oklahoma – Denver 124-118

Phoenix – LA Lakers 102-90



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×