Körfubolti

NBA: Jeremy Lin stigahæstur í tapleik | San Antonio á siglingu

Jeremy Lin og félagar hans í NY Knicks töpuðu grannaslagnum gegn NJ Nets.
Jeremy Lin og félagar hans í NY Knicks töpuðu grannaslagnum gegn NJ Nets. AP
Fjölmargir leikir fóru fram í NBA deildinni í körfuknattleik í nótt. Jeremy Lin og New York Knicks töpuðu á heimavelli í grannaslagnum gegn New Jersey, 100-92. Nýliðinn Lin, sem hefur gert allt vitlaust í deildinni að undanförnu var stigahæstur í liði New York með 21 stig en Deron Williams skoraði 38. Carmelo Anthony lék með New York á ný eftir að hafa misst af 7 leikjum vegna meiðsla. Hann skoraði aðeins 11 stig. Þetta var annar tapleikur New York í síðustu þremur leikjum eftir að liðið hafði unnið 7 leiki í röð. Meistaralið Dallas átti ekki í vandræðum með Boston á heimavelli og landaði 89-73 sigri. Dirk Nowitzki náði að komast í 20. sæti yfir stigahæstu leikmenn NBA deildarinnar frá upphafi og Jason Kidd komst í annað sætið yfir flestar stoðsendingar í NBA frá upphafi. Nowitzki fór uppfyrir Robert Parish fyrrum leikmann Boston Celtics sem skoraði 23,334 stig á ferlinum. Nowitzki hefur nú skorað 23,354 stig en hann skoraði 26 stig og tók 16 fráköst í leiknum. Kidd fór uppfyrir Michael Jordan á stoðsendingarlistanum en Kidd hefur gefið 2,514 stoðsendingar á ferlinum. Aðeins John Stockton hefur gefið fleiri stoðsendingar. San Antonio landaði sínum áttunda útisigri í röð og þeim ellefta í röð ef heimaleikir eru teknir með. San Antonio lagði Utah Jazz 106-102 á útivelli. Ekkert lið hefur unnið jafnmarga leiki í röð á þessari leiktíð. Tony Parker skoraði 23 stig og gaf 11 stoðsendingar fyrir San Antonio. Lakers lagði Portland 103-92 og skoraði Kobe Bryant 29 stig fyrir Lakers. Úrslit: Chicago – Atlanta 90-79 New York – New Jersey 92-100 Milwaukee – Orlando 90-93 Houston – Memphis 97-93 Dallas – Boston 89-73 Oklahoma – New Orleans 101-93 Denver – Minnesota 103-101 Utah – San Antonio 102-106 Phoenix – Washington 104-88 LA Lakers – Portland 103-92 Golden State – LA Clippers 104-97
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×