Körfubolti

Irving bestur í leik hinna rísandi stjarna

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ungar stjörnur NBA körfuboltans mættust í Orlando í nótt en leikurinn er hluti af hinni árlegu Stjörnuleikshelginni. Kyrie Irving, leikstjórnandi Cleveland Cavaliers, var valinn maður leiksins.

Það var fátt um fínar varnir en þeim meira um skemmtileg sóknartilþrif eins og hefð er fyrir í leikjum sem þessum. Irving skoraði úr öllum átta þriggja stiga skotum sínum í leiknum og lauk leik með 34 stig.

„Ég hef aldrei verið svona heitur fyrir utan. Það er verst að þetta gerðist í Stjörnuleiknum. Þessar tölur telja ekki sem hluti af tímabilinu," sagði Irving en lið hans hafði sigur í leiknum 146-133.

„Þegar öllu er á botninn hvolft var skemmtilegt að spila með svona hæfileikaríkum leikmönnum. Þetta var frábær upplifun," sagði Irving sem var valinn fyrstur af Cleveland í nýliðavalinu á síðasta ári.

Blake Griffin, framherji Los Angeles Clippers og nýliði síðasta árs, átti fjölmargar glæsilegar troðslur í leiknum og má sjá eina þeirra í spilaranum hér fyrir ofan. Griffin vann einmitt troðslukeppnina í fyrra.

Jeremy Lin lét lítið fyrir sér fara og spilaði í aðeins níu mínútur.

Stjörnuleikurinn sjálfur fer fram aðfaranótt mánudags og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Útsendingin hefst klukkan 01:15 eftir miðnætti.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×