Körfubolti

Jeremy Evans vann troðslukeppnina

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Jeremy Evans stóð uppi sem sigurvegari í árlegri troðslukeppni NBA-deildarinnar í tengslum við Stjörnuleikshelgina vestanhafs. Evans er fyrsti leikmaður Utah Jazz sem vinnur keppnina.

Ólíkt fyrri troðslukeppnum greiddu áhorfendur atkvæði með því að senda smáskilaboð með farsímum sínum. Engar einkunnir voru því gefnar af dómurum líkt og tíðkast hefur.

Keppendur voru fjórir. Auk Evans sýndu Chase Budinger hjá Houston Rockets, Paul George hjá Indiana Pacers og Derrick Williams hjá Minnesota Timberwolves frábær tilþrif.

Troðsla Jeremy Evans þar sem hann greip tvo bolta á lofti og tróð með tilþrifum þótti bera af í keppninni. Leikmenn buðu upp á fjölbreytilegar útgáfur af troðslum þar sem troðið var blindandi, stokkið í 360 gráður, vindmyllan klassíska var á sínum stað og meira að segja söngvarinn P. Diddy kom við sögu.

Sigurtroðslu Evans má sjá í myndbrotinu hér að ofan. Þá má sjá samantekt frá keppninni á heimasíðu NBA-deildarinnar með því að smella hér.

Stjörnuleikur NBA-deildarinnar fer fram í Orlando í Flórída í nótt. Leikurinn hefst á miðnætti og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×