Körfubolti

Love sigraði þriggja stiga skotkeppnina

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Love með verðlaunagripinn fína í nótt
Love með verðlaunagripinn fína í nótt MYND:NORDIC PHOTOS/GETTY IMAGES
Kevin Love kraftframherji Minnesota Timberwolves sem er hvað þekktastur fyrir frákastagetu sína kom mörgum á óvart með því að sigra þriggja stiga skotkeppni Stjörnuleikshelgar NBA körfuboltans í nótt. Hann sigraði Kevin Durant í úrslitum.

75 leikmenn hafa hitt betur úr þriggja stiga skotum sínum á tímabilinu en Love sem hefur hitt úr 34,8% skota sinna utan þriggja stiga línunnar. Love hefur hitt úr 36,5% þriggja stiga skota sinna á þriggja ára ferli sínum í NBA.

Love lét þessa tölfræði sig litlu varða í nótt. "Ef ég blóðgast ekki í leikjum er ég ósáttur við sjálfan mig," sagði Love eftir keppnina í nótt. "Ég fæ meira út úr því að berjast inni í teig en að spila fyrir utan hann en ég tel mig jafn góðan fyrir utan og inni í teig. En þegar öllu er á botninn hvolft þá vil ég láta muna eftir mér sem kraftframherja."

Love fékk 18 stig í fyrri umferð keppninnar í nótt líkt og Mario Chalmers og þurftu þeir því að keppa um að fá sæti í úrslitunum ásamt James Jones, sem hafði titil að verja, og Kevin Durant. Tæpara mátti það ekki vera því Chalmers steig á línuna í fjórða skoti sínu og Love því áfram.

James Jones hitti manna best í fyrri umferðinni og fékk þá 22 stig en hann náði sér aldrei á strik í úrslitunum þar sem hann fékk aðeins 12 stig. Baráttan var því á milli Love og Durant sem báðir fengu 16 stig í úrslitunum og því þurfti Love aftur að fara í bráðabana.

Love fékk 17 stig í bráðabananum en Durant aðeins 14 og Love því sigurvegari kvöldsins. "Þetta kemur mér ekki á óvart," sagði Love. "Skotprósenta mín hefur kannski farið eitthvað niður á við en ég hitti 42% á síðasta tímabili. Ég var ekki hátt skrifaður fyrirfram, ég átti ekki von á að sigra menn eins og Kevin eða James Jones en ég var svo heppinn að þeir hittu ekki vel í lokin en hey, sigur er sigur," sagði kátur Kevin Love eftir sigurinn.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×