Körfubolti

Kobe bætti stigamet Jordan í stjörnuleiknum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kobe Bryant í leiknum í nótt.
Kobe Bryant í leiknum í nótt. Nordic Photos / Getty Images
Kobe Bryant er orðinn stigahæsti leikmaður stjörnuleiks NBA-deildarinnar frá upphafi en hann fór fram úr sjálfum Michael Jordan í nótt.

Vestrið hafði betur eftir spennandi lokamínútur, 152-149, og var Kevin Durant, leikmaður Oklahoma City, valinn verðmætasti leikmaður leiksins en hann skoraði alls 36 stig.

Bryant skoraði 27 stig í leiknum og hefur nú skorað 271 stig á ferlinum. Jordan skoraði 262 stig á ferlinum en næstir á eftir koma þeir Kareem-Abdul Jabbar (251 stig) og Oscar Robertson (246 stig). Þetta var þrettándi stjörnuleikur Bryant á ferlinum.

Leikurinn var hin mesta skemmtun - mikið um troðslur og flottar sendingar eins og venjulega auk þess sem að leikurinn var spennandi. Vestrið byrjaði miklu betur og náði 21 stigs forystu í leiknum. En Austrið náði að minnka muninn í eitt stig undir lok leiksins og fékk tækifæri til að jafna leikinn með þriggja stiga flautukörfu en skot Dwayne Wade geigaði.

Stigahæstur í Austrinu varð LeBron James með 36 stig en Wade kom næstur með 24.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×