Körfubolti

Delonte West svaf í búningsklefa Dallas | staurblankur og ráðvilltur

Delonte West, leikmaður NBA meistaraliðsins Dallas Mavericks, er líkt og margir aðrir NBA leikmenn í tómum fjárhagsvandræðum þrátt fyrir að hafa verið með myljandi tekjur undanfarin ár.
Delonte West, leikmaður NBA meistaraliðsins Dallas Mavericks, er líkt og margir aðrir NBA leikmenn í tómum fjárhagsvandræðum þrátt fyrir að hafa verið með myljandi tekjur undanfarin ár. AP
Delonte West, leikmaður NBA meistaraliðsins Dallas Mavericks, er líkt og margir aðrir NBA leikmenn í tómum fjárhagsvandræðum þrátt fyrir að hafa verið með myljandi tekjur undanfarin ár. Staðan hjá West var það slæm s.l. haust að hann svaf í búningsklefa Dallas á milli æfinga á meðan verkbann NBA stóð yfir. Og það kom einnig fyrir að West gisti í bifreið sinni á þessum tíma.

Hinn 28 ára gamli West hefur þénað ágætlega á ferli sínum í NBA. Alls hefur hann fengið um 14 milljónir dollara í laun frá árinu 2004 eða sem nemur um 1,7 milljörðum kr. Á þessu tímabil fær hann um 110 milljónir kr. í laun frá Dallas.

West glímir við geðhvarfasýki, sem er geðsjúkdómur sem einkennist af geðsveiflum. Hann hefur lent í ýmsum atvikum sem hafa dregið dilk á eftir sér. Þar má nefna að hann var handtekinn árið 2009 með fjölmargar byssur í fórum sínum og rétt slapp hann við fangelsisvist í kjölfarið. West hefur tapað nánast öllu sem hann átti með ýmsum skrautlegum gjörningum og s.l. haust vann hann fyrir sér í húsgagnaverslun í Maryland.

Dallas samdi við West um miðjan desember á síðasta ári en hann hefur leikið með eftirtöldum liðum í deildinni: Boston Celtics (2004–2007), Seattle SuperSonics (2007–2008), Cleveland Cavaliers (2008–2010), Boston Celtics (2010–2011), Dallas Mavericks (2011).

Þegar West mætti til vinnu sinnar í Dallas ætlaði félagið að útvega honum hótelherbergi og greiða fyrir það. Launaþaksreglur NBA deildarinnar komu í veg fyrir að félagið gæti gert slíkt áður en tímabilið hófst. West fann enga aðra lausn en að gista í búningsklefa félagsins á milli æfinga og það kom einnig fyrir að hann svaf í bílnum í bílageymslu sem leikmenn nota á heimavelli Dallas.

Þegar Mark Cuban eigandi Dallas komst að því hvað var í gangi hjá West greip hann í taumana. Cuban útvegaði West íbúð og frá þeim tíma hefur West náð að bæta leik sinn og skilað betra framlagi til Dallas sem hefur titil að verja á þessu tímabili í NBA.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×