Körfubolti

Irving og Rubio bestu nýliðarnir í NBA í janúarmánuði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ricky Rubio.
Ricky Rubio. Mynd/AP
Kyrie Irving hjá Cleveland Cavaliers og Ricky Rubio hjá Minnesota Timberwolves voru valdir bestu nýliðarnir í janúarmánuði í NBA-deildinni í körfubolta. Tom Thibodeau, þjálfari Chicago Bulls og Scott Brooks, þjálfari Oklahoma City Thunder voru valdir bestu þjálfararnir. Hér er verið að tala um fyrsta rúma mánuðinn á tímabilinu því leikirnir í lok desember teljast einnig með.

Kyrie Irving hjá Cleveland Cavaliers stóð sig best allra nýliða í Austurdeildinni en enginn nýliðanna skoraði meira en hann eða 18,1 stig að meðaltali í leik. Irving var einnig með 4,9 stoðsendingar í leik og 51,1 prósent skotnýtingu. Hann nýtt 41 prósent þriggja stiga skota sinna.

Ricky Rubio hjá Minnesota Timberwolves stóðs sig best af nýliðum Vesturdeildarinnar. Rubio gaf flestar stoðsendingar af nýliðunum eða 8,9 að meðaltali í leik en hann var einnig með 11,4 stig og 2,24 stolna bolta að meðaltali.

Aðrir nýliðar sem komu til greina voru: Brandon Knight hjá Detroit, Chandler Parsons hjá Houston, Norris Cole hjá Miami, MarShon Brooks hjá New Jersey og Markieff Morris hjá Phoenix.

Tom Thibodeau, þjálfari Chicago Bulls, var valinn besti þjálfarinn í Austurdeildinni. Chicago Bulls náði bestum árangri allra liða í Austurdeildinni frá 25. desember til 31. janúar en liðið vann þá 18 af 23 leikjum sínum. Liðið vann 13 af 18 leikjum sínum með tíu stigum eða meira.

Scott Brooks, þjálfari Oklahoma City Thunder, var valinn besti þjálfarinn í Vesturdeildinni. Ekkert lið í allri deildinni náði betri árangri en Thunder vann 16 af fyrstu 20 leikjum sínum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×