Körfubolti

Miðaverð á NBA-leiki hækkar | Dýrast á leiki New York Knicks

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það er ekki ódýrt að kaupa sér miða í Madison Square Garden.
Það er ekki ódýrt að kaupa sér miða í Madison Square Garden. Mynd/Nordic Photos/Getty
Miðaverð á NBA-leiki er farið að hækka á nýjan leik eftir að hafa staðið í stað í þrjú ár. Meðalverð á miða hefur nú hækkað um 1.7 prósent og upp í 48,48 dollara eða rúmlega sex þúsund íslenskar krónur. Það langdýrast á leiki hjá New York Knicks en meðalmiðaverð á leik í Madison Square Garden er fimm sinnum hærra en hjá Memphis Grizzlies þar sem miðarnir eru ódýrastir.

Meðalverð á miða á heimaleiki New York Knicks er 117,47 dollarar eða tæplega 14500 íslenskar krónur. Miðarnir á leiki New York liðsins hækkuðu um 32,5 prósent milli ára. Miði á leiki Los Angeles Lakers kostar að meðaltali 99,25 dollara og í þriðja sæti yfir hæsta miðaverð er síðan Boston Celtis (68.55 dollarar). Chicago er í fjórða sæti og Miami Heat er síðan í fimmta sæti en meðalmiðverðið til að sjá LeBron James og Dwyane Wade er 67 dollarar eða 8300 íslenskar krónur.

Það kostar hinsvegar aðeins 22,95 dollara að meðaltali að kaupa miða á heimaleiki Memphis-liðsins en næstdýrast er síðan að kaupa miða á leiki Washington Wizards (23.64 dollarar).

Í samanburði við hinar stóru atvinnumannaíþróttirnar í Bandaríkjunum þá kostar ekki mikið að fara á NBA-leik. Meðalverð á miðum á leiki í ameríska fótboltanum er nefnilega 77,36 dollarar og það kostar að meðaltali 57,10 dollara að kaupa miða á íshokkíleiki. Miðaverðið á hafnarboltaleiki er hinsvegar aðeins 26,9 dollarar.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×