Körfubolti

Billups sleit hásin: Ég ætla ekki að skríða út úr NBA-deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Chauncey Billups.
Chauncey Billups. Mynd/Nordic Photos/Getty
Chauncey Billups verður ekkert meira með Los Angeles Clippers í NBA-deildinni í körfubolta á tímabilinu eftir að hann sleit hásin í leik á móti Orlando Magic í vikunni. Billups er 35 ára gamall og á sínu fimmtánda tímabili en ætlar sér samt að snúa aftur í NBA-deildina.

„Ferillinn minn er ekki búinn, það er öruggt," sagði Chauncey Billups eftir að hafa fengið slæmu fréttirnar um að hásinin væri slitin. „Ég ætla ekki að skríða út úr þessari deild. Ég ætla að fara burtu á báðum fótum. Ég mun koma aftur," sagði Billups ákveðinn.

Billups meiddist þegar hann ætlaði að fara í frákast eftir þriggja stiga skot en enginn mótherji kom nálægt honum. Hann sagði að tilfinningin hafi verið eins og að einhver hafi sparkað í sig og að hann hafi vitað það strax þegar hann reyndi að standa upp að þetta væru slæm meiðsli.

Chauncey Billups var með 15,0 stig og 4 stoðsendingar að meðaltali í 20 leikjum fyrir Clippers en eitt mikilvægasta hlutverkið hans í liðinu var þá að skóla til framtíðarstjörnurnar Chris Paul og Blake Griffin. Randy Foye kemur inn í byrjunarlið Clippers í stað Billups.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×