Körfubolti

NBA í nótt: Miami vann Lakers

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
James í baráttu við Matt Barnes í nótt.
James í baráttu við Matt Barnes í nótt. Nordic Photos / Getty Images
Það var stórslagur í NBA-deildinni í körfubolta í nótt en þá hafði Miami Heat betur gegn LA Lakers, 98-87. Tveir aðrir leikir voru einnig á dagskrá.

LeBron James náði að hrista af sér flensuveikindi og skoraði 31 stig í leiknum auk þess að taka átta fráköst og gefa átta stoðsendingar. Chris Bosh skoraði fimmtán en Dwyane Wade er enn frá vegna meiðsla.

Hjá Lakers var Pau Gasol stigahæstur með 26 stig og Kobe Bryant kom næstur með 24. Andrew Bynum skoraði fimmtán.

Þó svo að Wade sé einn besti leikmaður liðsins hefur Miami unnið alla fimm leiki sína sem hann hefur misst af á tímabilinu til þessa.

Houston vann sigur á New Orleans, 90-88, í framlengdum leik. Kevin Martin skoraði 32 stig, þar af 27 í fyrri hálfleik, en fjórði leikhluti var hreinasta hörmun hjá Houston.

Liðið var mest fjórtán stigum yfir en nýtti aðeins þrjú af fjórtán skotum sínum utan af velli og skoraði aðeins sjö stig. Hefur liðið aldrei skorað færri stig í einum leikhluta og um metjöfnun að ræða.

Houston bjargaði sér þó fyrir horn og vann leikinn í framlengingu.

Dallas vann Utah, 94-91, þar sem Shawn Marion skoraði 22 stig - þar af mikilvæga körfu undir lok leiksins sem fór langt með að tryggja sigurinn.

Utah hefur komið mörgum á óvart á tímabilinu en liðið var að tapa aðeins sínum öðrum heimaleik á tímablinu. Al Jefferson skoraði 22 stig fyrir liðið í nótt.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×