Körfubolti

NBA í nótt: San Antonio enn taplaust á heimavelli

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Steve Nash verst hér Tony Parker.
Steve Nash verst hér Tony Parker. Mynd/AP
San Antonio Spurs hafði í nótt betur gegn Phoenix Suns, 102-91, í leik liðanna í NBA-deildinni. San Antonio er því enn taplaust á heimavelli í deildinni.

Tim Duncan var með 24 stig og ellefu fráköst fyrir San Antonio sem hefur spilað níu leiki á heimavelli. Liðið hefur hins vegar tapað öllum fjórum leikjum sínum á útivelli til þessa.

Tony Parker bætti við sautján stigum og gaf þar að auki níu stoðsendingar. Steve Nash og Grant Hill léku báðir með Phoenix á ný eftir að hafa verið frá vegna meiðsla en Nash var með 20 stig og tíu stoðsendingar. Hill skoraði aðeins fjögur stig í leiknum.

Tveir aðrir leikir fóru fram í deildinni í nótt. Paul Millsap skoraði 26 stig fyrir Utah sem vann Denver, 106-96, og þá hafði Golden State betur gegn Detroit á útivelli, 99-91.

Þetta var fyrsti útivallasigur Golden State á tímabilinu en David Lee skoraði 24 stig fyrir liðið í nótt og Monta Ellis 22.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×