Körfubolti

Dwyane Wade fékk 29 milljón króna McLaren-bíl í afmælisgjöf

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dwyane Wade, leikmaður Miami Heat í NBA-deildinni í körfubolta, hélt upp á þrítugsafmæli sitt í vikunni og kærasta hans, Gabrielle Union, hélt honum af því tilefni glæsilega veislu á hóteli í bænum. Stærsta afmælisgjöfin kom þó ekki frá frúnni heldur bílaumboði í Miami sem sá ástæðu til þess að senda einn af flottustu bílum sínum til Wade.

Wade fékk nefnilega 230 þúsund dollara McLaren-bíl í afmælisgjöf frá umræddu bílaumboði en það gerir um 29 milljónir í íslenskum krónum. Bílinn var fluttur inn í hátíðargarðinn á hótelinu og þurfti krana til að lyfta honum á réttan stað fyrir veisluna.

Gjöfin hefur væntanlega komið Wade skemmtilega á óvart en hann fær nú nógu vel borgað fyrir körfuboltaleik sinn og ætti svo sem að hafa efni á því að kaupa svona bíl sjálfur. Bílaumboðið var hinsvegar tilbúið að splæsa í þessa risagjöf enda svo sem ekki slæm auglýsing að einn fljótasti leikmaður NBA-deildarinnar aki um á þeirra bíl.

McLaren MP4-12C bílinn er með 592 hestöfl og það tekur hann aðeins 3,2 sekúndur að komast upp í hundraðið. Wade er meiddur og hefur ekkert spilað með Miami-liðinu að undanförnu. Hann ætti því að hafa haft nægan tíma til að prufukeyra nýja kaggann sinn.

Þeir sem vilja sjá Jeremy Clarkson hjá Top Gear keyra McLaren MP4-12c bílinn geta smellt á myndbandið hér fyrir ofan.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×