Hvernig forseti? Ólafur Stephensen skrifar 2. janúar 2012 10:15 Ákvörðun Ólafs Ragnars Grímssonar um að bjóða sig ekki fram á nýjan leik til embættis forseta kemur að sumu leyti á óvart. Hann virtist vera að komast í kosningaham og vera reiðubúinn að nýta sér óvinsældir ríkisstjórnarinnar í eigin þágu með fordæmislausum árásum á stjórnarstefnuna. Á það er hins vegar einnig að líta að skoðanakannanir hafa sýnt fremur veika stöðu forsetans; hans gamla bakland á vinstri vængnum er gufað upp og vinsældir hans meðal stuðningsmanna núverandi stjórnarandstöðuflokka eru hugsanlega ekki nógar til að tryggja endurkjör. Svigrúmið fyrir öflugan mótframbjóðanda virtist stærra en oft áður. Og svo getur auðvitað verið að Ólafur Ragnar hlakki bara til að eiga fleiri frístundir í Mosfellsbænum og láta til sín taka í þjóðmálunum óbundinn „af þeim skorðum sem embætti forsetans setur jafnan orðum og athöfnum," eins og hann orðaði það í nýársávarpinu í gær. Ólafur Ragnar er reyndar sá forseti lýðveldisins sem hefur látið embættið setja orðum sínum og athöfnum minnstar skorður. Hann hefur oft valdið titringi með því að tjá sig opinberlega um ýmis mál án samráðs við stjórnvöld og stundum, aðallega í seinni tíð, talað þvert á stefnu ríkisstjórnarinnar. Hann hefur breytt forsetaembættinu og fórnað stöðu sinni sem sameiningartákn þjóðarinnar til þess að gera embættið pólitískara og áhrifameira. Í þessari viðleitni vega þyngst þrjár ákvarðanir Ólafs Ragnars um að nýta málskotsréttinn í 26. grein stjórnarskrárinnar til að grípa fram fyrir hendur Alþingis og vísa lögum sem það hefur samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hann hefur þó ekki gripið til þessa ráðs í öllum umdeildum málum, þar sem klárlega var „gjá milli þings og þjóðar", heldur í málum sem nýttust forsetanum til að styrkja eigin stöðu. Sterk rök eru fyrir því að slíkur málskotsréttur eigi að vera í höndum þjóðarinnar sjálfrar eða minnihluta Alþingis; að tiltekið hlutfall kjósenda eða þingmanna geti farið fram á þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekin mál, í stað þess að þetta mat sé undir geðþótta eins manns komið. Hlutverk forsetans og fyrirkomulag þjóðaratkvæðagreiðslna hefur verið til umræðu í tengslum við endurskoðun stjórnarskrárinnar. Það mál er ekki útkljáð og verður það ekki fyrir forsetakosningar, en gera verður ráð fyrir að umræður um það vegi þungt í kosningabaráttunni fyrir forsetakjör næsta sumar. Líklegt er að fram komi forsetaframbjóðendur sem aðhyllast ólíkar hugmyndir um hlutverk forsetans; sumir vilji halda áfram á þeirri braut sem Ólafur Ragnar hefur markað, en aðrir vilji fremur taka mið af þeirri hefð sem forsetarnir á undan honum mótuðu. Þjóðin stendur þá líka frammi fyrir skýrara vali en oft áður í forsetakosningum; vill hún forseta sem verður sameiningartákn þjóðarinnar og hagar sér sem slíkur eða vill hún að forsetinn verði áfram pólitískur gerandi sem tekst á um völdin við önnur lýðræðislega kjörin stjórnvöld? Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Forsetakosningar 2012 Ólafur Stephensen Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Þarf alltaf að vera svín? Harpa Kristbergsdóttir Skoðun Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Hvað eru jólin fyrir þér? Hugrún Sigurjónsdóttir Skoðun Landið helga? Ingólfur Steinsson Skoðun Tímamót Jón Steindór Valdimarsson Skoðun
Ákvörðun Ólafs Ragnars Grímssonar um að bjóða sig ekki fram á nýjan leik til embættis forseta kemur að sumu leyti á óvart. Hann virtist vera að komast í kosningaham og vera reiðubúinn að nýta sér óvinsældir ríkisstjórnarinnar í eigin þágu með fordæmislausum árásum á stjórnarstefnuna. Á það er hins vegar einnig að líta að skoðanakannanir hafa sýnt fremur veika stöðu forsetans; hans gamla bakland á vinstri vængnum er gufað upp og vinsældir hans meðal stuðningsmanna núverandi stjórnarandstöðuflokka eru hugsanlega ekki nógar til að tryggja endurkjör. Svigrúmið fyrir öflugan mótframbjóðanda virtist stærra en oft áður. Og svo getur auðvitað verið að Ólafur Ragnar hlakki bara til að eiga fleiri frístundir í Mosfellsbænum og láta til sín taka í þjóðmálunum óbundinn „af þeim skorðum sem embætti forsetans setur jafnan orðum og athöfnum," eins og hann orðaði það í nýársávarpinu í gær. Ólafur Ragnar er reyndar sá forseti lýðveldisins sem hefur látið embættið setja orðum sínum og athöfnum minnstar skorður. Hann hefur oft valdið titringi með því að tjá sig opinberlega um ýmis mál án samráðs við stjórnvöld og stundum, aðallega í seinni tíð, talað þvert á stefnu ríkisstjórnarinnar. Hann hefur breytt forsetaembættinu og fórnað stöðu sinni sem sameiningartákn þjóðarinnar til þess að gera embættið pólitískara og áhrifameira. Í þessari viðleitni vega þyngst þrjár ákvarðanir Ólafs Ragnars um að nýta málskotsréttinn í 26. grein stjórnarskrárinnar til að grípa fram fyrir hendur Alþingis og vísa lögum sem það hefur samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hann hefur þó ekki gripið til þessa ráðs í öllum umdeildum málum, þar sem klárlega var „gjá milli þings og þjóðar", heldur í málum sem nýttust forsetanum til að styrkja eigin stöðu. Sterk rök eru fyrir því að slíkur málskotsréttur eigi að vera í höndum þjóðarinnar sjálfrar eða minnihluta Alþingis; að tiltekið hlutfall kjósenda eða þingmanna geti farið fram á þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekin mál, í stað þess að þetta mat sé undir geðþótta eins manns komið. Hlutverk forsetans og fyrirkomulag þjóðaratkvæðagreiðslna hefur verið til umræðu í tengslum við endurskoðun stjórnarskrárinnar. Það mál er ekki útkljáð og verður það ekki fyrir forsetakosningar, en gera verður ráð fyrir að umræður um það vegi þungt í kosningabaráttunni fyrir forsetakjör næsta sumar. Líklegt er að fram komi forsetaframbjóðendur sem aðhyllast ólíkar hugmyndir um hlutverk forsetans; sumir vilji halda áfram á þeirri braut sem Ólafur Ragnar hefur markað, en aðrir vilji fremur taka mið af þeirri hefð sem forsetarnir á undan honum mótuðu. Þjóðin stendur þá líka frammi fyrir skýrara vali en oft áður í forsetakosningum; vill hún forseta sem verður sameiningartákn þjóðarinnar og hagar sér sem slíkur eða vill hún að forsetinn verði áfram pólitískur gerandi sem tekst á um völdin við önnur lýðræðislega kjörin stjórnvöld?