Lágt muldur þrumunnar Guðmundur Andri Thorsson skrifar 31. janúar 2011 06:15 Þegar almennar kosningar eru dæmdar ógildar af sjálfum Hæstarétti landsins jafngildir það yfirlýsingu um að viðkomandi þjóð sé fákunnandi um lýðræði. Það er reiðarslag fyrir stjórnvöld. Einkum innanríkisráðherra sem ber ábyrgð á framkvæmdinni – og ætti vissulega að „hugleiða stöðu sína“ – og forsætisráðherra en ekki síður stjórnkerfið, alla lögfræðingana í ráðuneytunum sem áttuðu sig ekki á því sem lögspekingar Sjálfstæðismanna föttuðu eins og skot en þögðu um þar til á réttu augnabliki: hvað það táknaði að láta þessar kosningar fara fram samkvæmt lögum um Alþingiskosningar. Þetta er líka sérlega auðmýkjandi fyrir þjóðina – og ekki mátti hún nú við miklu eftir allt sem á undan er gegnið.„Hugleiða stöðu sína“ Þegar þetta er skrifað er landskjörstjórnin búin að segja af sér, sem var nú eiginlega lágmark, og margir sagðir „hugleiða stöðu sína“. Skítt með milljarðana sem fóru í súginn, skítt með skringilegt orðspor þjóðarinnar í kjölfar svona dóms: hitt er verra að svona atburðir verða til þess að æ fleiri einstaklingar taka að „hugleiða stöðu sína“ sem Íslendingar yfirleitt: taka að að hugleiða alvarlega hvort þeir ættu ekki bara að segja af sér sem Íslendingar. Stemmningin í samfélaginu þyngist. Og þetta litla og viðkvæma samfélag má illa við því að missa úr landi gott fólk – og alveg kannski sérstaklega praktíska og vinnusama fólkið sem þolir illa svona þrálátan dellugang. Draumurinn snerist um „Nýja Ísland“. Hann var sá að hætta þessu sjúski, hætta að gera allt svona illa, óheilindunum, vera hreinlynd, segja satt, hreinsa til. Gera hlutina rétt. Flokkakerfið hefði brugðist og nú þyrftu landsmenn að kjósa fulltrúa sína beint til að ljúka því verkefni sem stjórnmálamennirnir hefðu hummað fram af sér frá lýðveldisstofnun: að setja þessa samfélagi traustan grundvöll sem annað yrði reist á og tryggði að ofríkismenn færu ekki sínu fram með útúrsnúningum á stjórnarskránni, eins og dæmin sanna því allir vita að útgerðamenn hafa komist upp með að hafa að engu ákvæði í stjórnarskránni um sameign þjóðarinnar á fiskimiðum kringum landið og búið til lénsveldi úr veiðireynslu og veðsett síðan þá „eign“ eitthvað lengst inn í þýska bankakerfið sem „á“ því óveiddan fiskinn okkar núna; og full ástæða til að óttast að annarra auðlinda okkar bíði hið sama fái sömu menn ráðið og landið allt verði magmað upp. Draumurinn snerist um nýja sjálfsmynd. Áreiðanleika. Dugnað. Hæfni. Þau Ögmundur og Jóhanna geta látið dæluna ganga um LÍU og kveinkað sér undan dómi Hæstaréttar, en það breytir því ekki að draumurinn um nýja sjálfsmynd gufaði upp við þegar dómurinn féll.„Ver ég þér lagalýriti, efalausu lýriti…“ Enginn heyrði lágt muldur þrumunnar fyrr en hún kom úr heiðskíru lofti. Þetta var vel undirbúin og vel útfærð aðgerð og ætti að minna okkur á að óvinurinn er útsmoginn. Hér hafa lagameistarar vélað um. Aftur erum við lent í Íslandssögunni – þessari endalausu lagarefjasögu. Það er engu líkara en að við séum á ný komin í Njálu og Mörður Valgarðsson að leggja á ráðin um það hvernig megi ónýta mál, ryðja dóminn, lýsa lýriti, eins og Skafti Harðarson endaði á því að gera, en lýritur þýðir bann við tilteknum lögfræðilegum athöfnum, eins og raunin varð einmitt með stjórnlagaþingið. Það er erfitt að leggja trúnað á að Hæstiréttur sé handbendi LÍÚ í þessu máli eða bera brigður á úrskurð sex manna dóms. Það breytir ekki hinu: Orrustan geysar. Það er orustan um Ísland og hún snýst um það hvernig samfélag verður hér í náinni framtíð, lífskjör barnanna okkar og barnabarnanna: auðræði eða lýðræði, lögræði eða þingræði, sameign auðlinda eða láta þær hverfa inn í vafningum og veðsetningum. Orrustan geysar og hún snýst um það hvort menn á borð við Hannes Smárason sem kærir nú allt og alla en aðallega þó sjálfan sig kollóttan – hvort slíkir gjálífismenn fá auðlindir landsins að leggja undir í spilavítum heimsins af fullkominni léttúð. Orrustan geysar og það munar um alla. Vinstri menn eru kannski með alla bestu söngvarana en hægri menn eru greinilega með bestu lögfræðingana. Og þjóðin öll verður „að hugleiða stöðu sína“. Ætli hún sér að lifa einhvern tímann í þessu landi í þjóðfélagi sem er ekki snargalið af græðgi, bóluvexti og oflæti á borð við tímann upp úr aldamótum þá verður hún að taka þátt í því að treysta undirstöðurnar. Vera með. Þótt staðan í hálfleik sé kannski Sjálfstæðisflokkurinn: 20 – Þjóðin: 17. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Almageddon? Eyþór Kristleifsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun Það sem ekki má fjalla um fyrir kosningar til Alþingis Árni Jensson Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Óstjórn í húsnæðismálum Ragnar Þór Ingólfsson Skoðun Betri Strætó 2025 og (svo) Borgarlína Dagur B. Eggertsson Skoðun Afvegaleidd umræða um áskoranir heilbrigðiskerfisins Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Vímuefnið VONÍUM Haraldur Ingi Haraldsson Skoðun
Þegar almennar kosningar eru dæmdar ógildar af sjálfum Hæstarétti landsins jafngildir það yfirlýsingu um að viðkomandi þjóð sé fákunnandi um lýðræði. Það er reiðarslag fyrir stjórnvöld. Einkum innanríkisráðherra sem ber ábyrgð á framkvæmdinni – og ætti vissulega að „hugleiða stöðu sína“ – og forsætisráðherra en ekki síður stjórnkerfið, alla lögfræðingana í ráðuneytunum sem áttuðu sig ekki á því sem lögspekingar Sjálfstæðismanna föttuðu eins og skot en þögðu um þar til á réttu augnabliki: hvað það táknaði að láta þessar kosningar fara fram samkvæmt lögum um Alþingiskosningar. Þetta er líka sérlega auðmýkjandi fyrir þjóðina – og ekki mátti hún nú við miklu eftir allt sem á undan er gegnið.„Hugleiða stöðu sína“ Þegar þetta er skrifað er landskjörstjórnin búin að segja af sér, sem var nú eiginlega lágmark, og margir sagðir „hugleiða stöðu sína“. Skítt með milljarðana sem fóru í súginn, skítt með skringilegt orðspor þjóðarinnar í kjölfar svona dóms: hitt er verra að svona atburðir verða til þess að æ fleiri einstaklingar taka að „hugleiða stöðu sína“ sem Íslendingar yfirleitt: taka að að hugleiða alvarlega hvort þeir ættu ekki bara að segja af sér sem Íslendingar. Stemmningin í samfélaginu þyngist. Og þetta litla og viðkvæma samfélag má illa við því að missa úr landi gott fólk – og alveg kannski sérstaklega praktíska og vinnusama fólkið sem þolir illa svona þrálátan dellugang. Draumurinn snerist um „Nýja Ísland“. Hann var sá að hætta þessu sjúski, hætta að gera allt svona illa, óheilindunum, vera hreinlynd, segja satt, hreinsa til. Gera hlutina rétt. Flokkakerfið hefði brugðist og nú þyrftu landsmenn að kjósa fulltrúa sína beint til að ljúka því verkefni sem stjórnmálamennirnir hefðu hummað fram af sér frá lýðveldisstofnun: að setja þessa samfélagi traustan grundvöll sem annað yrði reist á og tryggði að ofríkismenn færu ekki sínu fram með útúrsnúningum á stjórnarskránni, eins og dæmin sanna því allir vita að útgerðamenn hafa komist upp með að hafa að engu ákvæði í stjórnarskránni um sameign þjóðarinnar á fiskimiðum kringum landið og búið til lénsveldi úr veiðireynslu og veðsett síðan þá „eign“ eitthvað lengst inn í þýska bankakerfið sem „á“ því óveiddan fiskinn okkar núna; og full ástæða til að óttast að annarra auðlinda okkar bíði hið sama fái sömu menn ráðið og landið allt verði magmað upp. Draumurinn snerist um nýja sjálfsmynd. Áreiðanleika. Dugnað. Hæfni. Þau Ögmundur og Jóhanna geta látið dæluna ganga um LÍU og kveinkað sér undan dómi Hæstaréttar, en það breytir því ekki að draumurinn um nýja sjálfsmynd gufaði upp við þegar dómurinn féll.„Ver ég þér lagalýriti, efalausu lýriti…“ Enginn heyrði lágt muldur þrumunnar fyrr en hún kom úr heiðskíru lofti. Þetta var vel undirbúin og vel útfærð aðgerð og ætti að minna okkur á að óvinurinn er útsmoginn. Hér hafa lagameistarar vélað um. Aftur erum við lent í Íslandssögunni – þessari endalausu lagarefjasögu. Það er engu líkara en að við séum á ný komin í Njálu og Mörður Valgarðsson að leggja á ráðin um það hvernig megi ónýta mál, ryðja dóminn, lýsa lýriti, eins og Skafti Harðarson endaði á því að gera, en lýritur þýðir bann við tilteknum lögfræðilegum athöfnum, eins og raunin varð einmitt með stjórnlagaþingið. Það er erfitt að leggja trúnað á að Hæstiréttur sé handbendi LÍÚ í þessu máli eða bera brigður á úrskurð sex manna dóms. Það breytir ekki hinu: Orrustan geysar. Það er orustan um Ísland og hún snýst um það hvernig samfélag verður hér í náinni framtíð, lífskjör barnanna okkar og barnabarnanna: auðræði eða lýðræði, lögræði eða þingræði, sameign auðlinda eða láta þær hverfa inn í vafningum og veðsetningum. Orrustan geysar og hún snýst um það hvort menn á borð við Hannes Smárason sem kærir nú allt og alla en aðallega þó sjálfan sig kollóttan – hvort slíkir gjálífismenn fá auðlindir landsins að leggja undir í spilavítum heimsins af fullkominni léttúð. Orrustan geysar og það munar um alla. Vinstri menn eru kannski með alla bestu söngvarana en hægri menn eru greinilega með bestu lögfræðingana. Og þjóðin öll verður „að hugleiða stöðu sína“. Ætli hún sér að lifa einhvern tímann í þessu landi í þjóðfélagi sem er ekki snargalið af græðgi, bóluvexti og oflæti á borð við tímann upp úr aldamótum þá verður hún að taka þátt í því að treysta undirstöðurnar. Vera með. Þótt staðan í hálfleik sé kannski Sjálfstæðisflokkurinn: 20 – Þjóðin: 17.